Sjálfsíkveikja í Peugeot 307
14.06.2005
Peugeot 307.
Frá því í febrúarmánuði er vitað um 9 bíla í Danmörku og tvo í Svíþjóð af gerðinni Peugeot 307 sem kviknað hefur í fyrirvaralaust. Engin skýring hefur enn fundist á þessu en allir bílarnir 11 voru kyrrstæðir og mannlausir og slökkt á vélinni þegar eldurinn tók að læsast um þá. Peugeot verksmiðjurnar í Frakklandi og aðalumboðin í Danmörku og Svíþjóð leita með logandi ljósi að skýringu á þessu. Ekkert slys hefur orðið á fólki í þessum brunum. Frá þessu er greint í Politiken í dag.
Peugeot 307 er mest seldi bíllinn í Danmörku frá því hann kom á markað 2001. Alls eru í umferð rúmlega 22 þúsund bílar þessarar gerðar og hið einasta sem sameiginlegt er með bílunum sem brunnið hafa er að þeir eru allir um það bil tveggja ára gamlir en um 11 þúsund tveggja ára gamlir Peugeot 307 bílar eru í umferð í Danmörku.
Janne Bock upplýsingafulltrúi Peugeot í Danmörku segir við Politiken að mjög lítil hætta sé á ferðum fyrir eigendur þessara bíla en ráðleggur þeim að skilja ekki börn sín eftir ein í bílunum fyrr en ástæða þessara bruna sé fundin. -Okkur þykir þetta mjög leitt en bæði við og verksmiðjurnar leitum eftir megni að ástæðunni og vonandi finnst hún bráðlega. Vandinn er sá að við getum ekki sagt neitt við viðskiptavini okkar fyrr en við vitum hver ástæðan er. Hún segist ekki hafa heyrt um bruna í bílunum annarsstaðar en í Danmörku og Svíþjóð.-
-Við vitum að það hafa brunnið bílar, meira að segja í Svíþjóð,- sagði Maria Lantz upplýsingafulltrúi Peugeot í Svíþjóð við Aftonbladet í dag og bætti við að málið væri í athugun. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.