Sjálfvirk hraðatakmörkun
Ef nýtt sjálfvirkt hraðatakmörkunarkerfi verður innleitt í Evrópu verða hraðamyndavélar og radarmælingar og meðfylgjandi sektagreiðslur trúlega úr sögunni. Verði kerfið tekið upp mun tæknin sjá til þess að sérhver bíll fer ekki hraðar en hann má. Tæknin grípur inn í aksturinn ef ekið er of hratt og hemlar bílnum.
Á hverju ári farast um það bil 30 þúsund manns í umferðarslysum í Evrópu. ESB vill innleiða nýju tæknina í því skyni að draga úr dauðsföllunum um amk. þriðjung til ársins 2020.
Þetta nýja kerfi sem um ræðir nefnist ISA (Intelligent Speed Authority). Það vinnur þannig að GPS tæki í bílnum nemur upplýsingar frá gervitungli um leyfilegan hámarkshraða þar sem bílinn er staddur. GPS búnaður í bílunum sem tekur við upplýsingunum er tengdur við stjórntölvu bílsins og gefur henni skipun um að hægja á bílnum ef hann fer of hratt. Þetta gerist án þess að ökumaðurinn geti neitt að gert. Auk GPS búnaðarins er einnig lagt til að í bílum verði myndavélar sem lesa af hámarkshraðaskiltunum og hægja á bílnum sé hann yfir hámarkshraða. Það á semsé að vera útilokað að keyra hraðar en leyfilegt er.
Hrifning yfir þessum hugmyndum er mismikil. Samgönguráðherra Breta hafnar því algerlega að innleiða ISA kerfið þar sem það feli í sér „stórabróðurlega“ vöktun á almenningi
Bílaeigendasamtökin AA telja að ISA kerfið geti valdið nýjum vandræðum við aðstæður eins og framúrakstur og aðrar aðstæður þar sem nauðsynlegt getur verið að snögggefa í til að forða slysi eða árekstri. Það verði einfaldlega ekki hægt.