Sjö ára fangelsisdómur fyrir aðild í dísilhneykslinu
Dómstóll í Detroit í Bandaríkjunum dæmdi í vikunni Þjóðverjann Oliver Schmidt og fyrrverandi framkvæmdastjóra Volkswagen í Bandaríkjunum í sjö ára fangelsi fyrir aðild sína í dísilhneykslinu sem upp komst í Bandaríkjunum 2015. Hann fékk að auki sektargreiðslu upp á rúmar 40 milljónir íslenskar krónur.
Forsaga málsins, sem vakti athygli og hneykslan um heim allan, er sú að VW í Bandaríkjunum var staðið að því að hátt í 600 þusund bílar frá fyrirtækinu voru með búnað til að blekkja mengunarmælingar.
Í stuttu máli þá var komið fyrir hugbúnaði eða forrit í í tölvum bílanna sem skynjar það þegar byrjað er að mengunarmæla þá. Búnaðurinn gangsetur þá hreinsibúnaðinn í útblásturskerfi bílsins sem annars er lítt eða ekki virkur í venjulegri daglegri notkun hans.
Þetta þýðir að mengunarmælingin sýnir mjög fegraða mynd af losun NOx sambanda og sótagna sem eru krabbameinsvaldar. Þær mengunartölur sem svona fengust og voru skráðar í gerðarviðurkenningarskjöl bílanna voru því hrein og bein fölsun. Niðurstöður mengunarmælinga eru forsenda þess hvort og í hve miklum mæli bíllinn er skattlagður bæði við kaup og í notkun.
Oliver Schmidt átti yfir höfði sér mun þyngri dóm en hann komst að samkomulagi við saksóknara sem féllu frá flestum liðum ákærunnar gegn játningu fyrir brotin sem eftir stóðu. Að lokinni afplánun verður hann rekinn úr landi.
Dómarinn taldi Schmidt forsprakkann í svindlinu. Fleiri aðilar eru bendlaðir við málið en þeir hafa ekki enn sem komið er gefið sem fram við saksóknara.