Sjöunda þjóðarátak VÍS gegn umferðarslysum

http://www.fib.is/myndir/Grafarr%F3.jpg

Deilur, rifrildi og andlegt uppnám var undanfari fjögurra af 15 banaslysum í umferðinni árið 2007. Í þremur þessara tilfella kom áfengi einnig við sögu. Þetta kom fram hjá Ágústi Mogensen forstöðumanni Rannsóknanefndar umferðarslysa á fréttafundi sem tryggingafélagið VÍS hélt í dag til að kynna nýtt þjóðarátak gegn umferðarslysum, hið sjöunda sem félagið gengst fyrir.

Í þjóðarátaki VÍS í ár verður lögð áhersla á að brýna fyrir ökumönnum að þeir haldi ekki út í umferðina í tímaþröng og stressi heldur gefi sér rúman tíma þegar þeir skipuleggja ferðir sínar. Vakin er athygli á hættunni sem fylgir því þegar ökumenn setjast undir stýri án þess að vera í andlegu jafnvægi. Ökumenn sem eru í uppnámi hvort sem það er vegna þreytu, deilumála eða annarra persónulegra ástæðna eru líklegri til að lenda í óhöppum en aðrir. Yfirskrift átaksins er „Gefðu þér tíma“ og eins og undanfarin ár er viðamikil auglýsingaherferð í blöðum og ljósvakamiðlum liður í Þjóðarátaki VÍS. Á næstu vikum mun VÍS birta nýjar og sláandi, útvarps-, sjónvarps- og blaðaauglýsingar þar sem yfirskriftin er „Gefðu þér tíma.“

Meðal þeirra þátta sem trufla einbeitingu ökumanna og sem Þjóðarátak VÍS beinist að í ár er notkun farsíma án handfrjáls búnaðar. Að sögn Ragnheiðar Davíðsdóttur forvarnarfulltrúa hjá VÍS þarf að fylgjast betur með því að ökumenn tali ekki í síma á ferð nema að þeir noti handfrjálsan búnað.  „Það vekur athygli að á sama tíma og skráðir eru 308 þúsund farsímar hér á landi og bílaeign hefur aldrei verið meiri, þá voru á árunum 2001 til 2006 aðeins 625 ökumenn kærðir að jafnaði á ári fyrir að tala í síma undir stýri. Þrátt fyrir að kærum hafði fjölgað í 1338 árið 2006 er ljóst að það þarf að leggja mun meiri áherslu á að breyta þessu hegðunarmynstri ökumanna enda er það vaxandi áhættuþáttur í umferðinni hér á landi,“ segir Ragnheiður sem í dag kynnti Þjóðarátak VÍS fyrir fjölmiðlamönnum ásamt Guðmundi Erni Gunnarssyni forstjóra félagsins.