Sjóvá opnar Forvarnahúsið

 http://www.fib.is/myndir/HerdisStorgaard.jpg http://www.fib.is/myndir/Forvarnarhusid.jpg
Herdís Storgaard forstöðumaður Forvarnahúss 

Í síðustu viku opnaði tryggingafélagið Sjóvá-Almennar tryggingar Forvarnahúsið. Markmiðið með Forvarnahúsinu er að efla og samræma forvarnir í landinu með aðal áherslu á slysavarnir. Forvarnahúsið verður þannig öflugt þekkingarsetur um slysavarnir. Eitt helsta hlutverk Forvarnahússins er að miðla upplýsingum og fræða almenning um slysavarnir. Starfsmenn Forvarnahússins munu starfa með fyrirtækjum, félagasamtökum og opinberum aðilum að eflingu og samhæfingu slysavarna.

Starfsmenn Forvarnahússins verða til að byrja með tveir; Herdís L. Storgaard forstöðumaður og Einar Guðmundsson forvarnafulltrúi en þau munu í sameiningu veita húsinu forstöðu. Einar Guðmundsson hefur um árabil starfað að öryggismálum umferðarinnar og m.a. staðið fyrir námskeiðum fyrir unga ökumenn og Herdís er landsþekkt fyrir störf sín í þágu slysavarna, ekki síst slysa á börnum.

Hluti af innviðum Forvarnahússins er færanlegur sem opnar þann möguleika að fara með starfsemi þess hvert á land sem er. Lögð verður sérstök áhersla á góð tengsl við landsbyggðina þannig að sem flestir landsmenn geti nýtt sér þá þjónustu sem verður í boði.

Þema sumarsins í húsinu verður “Öryggi fjölskyldunnar á ferðalagi.” Þar verður lögð sérstök áhersla á að heimilið og nánasta umhverfi þess sé öruggt, fjölskyldan sé örugg í bílnum og á áningarstöðum.

Sérstök slóð hefur verið opnuð af vef Sjóvár-Almennra trygginga, www.sjova.is inn á sérstakan vef Forvarnahúss. Þar er að finna fræðslu um slysavarnir á og í kring um heimilið, á ferðalögum, í umferðinni og í vinnunni. Í þeim kafla er lýtur að slysavörnum í umferðinni eru m.a. ágætar leiðbeiningar um  hvernig bíllinn skuli vera rétt útbúinn til notkunar, ekki síst til lengri ferðalaga.