Skattar af bílum og umferð skila nú þegar miklum tekjum í ríkissjóð
13.01.2019
Bílar og umferð standa nú þegar undir allri uppbyggingu og rekstri vegakerfisins og gott betur. Engin þörf er á aukinni skattheimtu með vegtollum til að standa undir því. Hér eru 10 staðreyndir og ábendingar.
- Samtals er áætlað að skattar á innflutning og notkun bíla skili ríkissjóði 80 milljörðum króna á árinu 2019.
- Aðeins hluti af heildartekjum ríkisins af bílum og umferð fer í nýbyggingu og viðhald vegakerfisins, eða 29 milljarðar af þessum 80 milljörðum króna.
- Einkabíllinn er eina samgönguformið fyrir almenning sem skilar meiri tekjum í ríkissjóð en sem nemur kostnaði.[1] Álögur á þunga atvinnubíla (vörubíla, flutningabíla og rútur) standa ekki undir kostnaði við það slit og álag sem þeir valda í vegakerfinu.
- Skattlagning á bíla og umferð á sér stað með margvíslegum hætti. Þar á meðal eru vörugjöld við innflutning bíla, bifreiðagjald, kílómetragjald af stórum bílum, eldsneytisskattar, kolefnisgjald og flutningsjöfnunargjald.
- Virðisaukaskattur leggst ofan á öll viðskipti sem tengjast bílum og umferð. Virðisaukaskattur er neytendaskattur sem almenningur stendur að öllu leyti undir með kaupum sínum á vörum og þjónustu.
- Bifreiðagjald er bráðabirgðaskattur sem lagður var á þyngd bíla fyrir 30 árum til að staga upp í fjárlagagat. Það er enn innheimt og skilar nú 8 milljörðum króna í ríkissjóð.
- Kolefnisgjald á eldsneyti var fyrst lagt á 2010. Þá skilaði það einum milljarði króna, núna 3,7 milljörðum.
- Sveitarfélögin láta ekki sitt eftir liggja í gjaldtökunni. Engar götur eru lagðar nema fyrst sé greitt gatnagerðargjald. Víða í stærri sveitarfélögum eru tekin bílastæðagjöld á miðlægum svæðum og slík gjaldtaka fer hratt vaxandi.
- Orkuskiptin krefjast þess að ríkisvaldið hugi að nýjum leiðum til gjaldtöku af bílum og umferð sem miðast við afnot vegakerfisins. Lausnin felst ekki í vegtollum á stöku stað. Frekar að greitt verði í samræmi við ekna kílómetra. Slíkt gjald gæti tekið mið af álaginu sem ökutækið veldur vegakerfinu með þyngd sinni og þeim umhverfisáhrifum sem það hefur. Framkvæmd slíkrar gjaldtöku þarf ekki að vera flóknari eða dýrari en álestur á raforkumæla heimilanna.
- Ástæða er til að benda á að auknar álögur ríkisvaldsins á bíla og umferð eru m.a. ætlaðar til að niðurgreiða innanlandsflug fyrir einstaklinga sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu, óháð efnahag viðkomandi.