Skattgreiðendur munu fá Vaðlaheiðargöng í hausinn

Undanfarna daga hefur FÍB fjallað um um innheimtu vegatolla í Vaðlaheiðargöngum, en áhugamenn um gerð ganganna hafa haldið því fram að vegatollar geti alfarið staðið undir stofnkostnaðinum. FÍB hefur fært rök fyrir því að þessar áætlanir séu háðar mikilli óvissu. Einnig hefur FÍB bent á að umferð á þessari leið er svo lítil að hún getur engan veginn staðið undir kostnaðinum nema með mjög háum vegatollum, sem fáir hafa áhuga á að borga.

Vegatollar mega að hámarki vera 500-600 kr.

http://www.fib.is/myndir/Plan1.jpg
http://www.fib.is/myndir/Plan2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Plan3.jpg
http://www.fib.is/myndir/Plan4.jpg
FÍB gerir ekki ráð fyrir að mögu-
legt verði að innheimta hærri
vegatolla en 800 kr. að meðaltali,
þar sem umferð mundi hverfa
með hærri vegatollum. FÍB gerir
ráð fyrir að framkvæmdin fái ekki
lán á lægri en 5% vöxtum. Bjart-
sýn áætlun FÍB gerir ráð fyrir að
80% umferðarinnar fari um
göngin með 800 kr. vegatoll.
Hófleg áætlun gerir ráð fyrir að
tveir þriðju hlutar vegfarenda
kjósi göngin. Raunsæ áætlun gerir
ráð fyrir að meðaltals vegatollur
verði lítið hærri en í Hvalfjarðar-
göngum og að rétt um helmingur
ársumferðarinnar fari um göngin.
Grafið er reiknað sem meðaltal
fyrstu 10 áranna í rekstri gang-
anna.

Ekki verður hægt að innheimta hærri vegatolla en vegfarendur vilja borga. Miðað við 9 mínútna sparnað í aksturstíma og 400 kr. í bensínkostnaði er hæpið að vegatollur umfram 500-600 kr. geti gengið. Ef tollurinn verður hærri fer fólk frekar um Víkurskarð. Að sumarlagi þyrfti þessi upphæð að vera enn lægri en á veturna getur hún verið hærri. Til samanburðar má benda á að meðalfargjald í Hvalfjarðargöngum er 485 kr. en tímasparnaður þar er 30 mínútur og bensínsparnaður 600-900 kr. fyrir fólksbíla.

En þurfa að vera 1.100 til 1.300 kr.

Miðað við umferðatölur á leiðinni milli Akureyrar og Húsavíkur þyrftu vegatollar í Vaðlaheiðargöngum að verða 1.100 til 1.300 kr. til að standa undir gerð og rekstrarkostnaði ganganna. Er þá miðað við að nánast allir fari um göngin.

Það er deginum ljósara að þetta dæmi gengur ekki upp fjárhagslega. Skattgreiðendur munu því fá Vaðlaheiðargöng í hausinn. Áformað er að hefja gangagerðina í vor eða sumar og ljúka henni á þremur árum. Strax þá hefjast vaxtagreiðslur og afborganir af framkvæmdalánum og þá þarf að opna inn í ríkissjóð.

Skipt um gír í umræðunni

Líklega hefur umræðan um Vaðlaheiðargöng verið á heiðarlegustu nótunum hjá Eyþingi, samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi. Þar hefur ávallt verið gert ráð fyrir að ríkissjóður borgaði helminginn af göngunum, svo og rekstrarkostnað. En þar sem ríkissjóður er tómur hafa stórframkvæmdir í vegamálum verið slegnar út af borðinu, nema þær sem hægt er að fjármagna með vegatollum. Þá bregður svo við að gerð Vaðlaheiðarganga er sögð borga sig alfarið með vegatollum. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur keypt þær fullyrðingar og hleypt verkefninu af stað, með fyrirvara um fjármögnun. Stefnan er sett á að lífeyrissjóðir kaupi skuldabréf til að fjármagna framkvæmdina. Lífeyrissjóðirnir vilja hins vegar háa vexti vegna áhættu við gangagerðina og óvissu um innheimtu vegatolla.

Ekki brýnasta framkvæmdin

FÍB er síður en svo á móti Vaðlaheiðargöngum. Þau yrðu til mikilla bóta þá vetrardaga sem færð er slæm um Víkurskarð. En Vaðlaheiðargöng eru ekki fremst í röð nauðsynlegra framkvæmda í vegamálum, enda er færð oft slæm á veturna víðar en í Víkurskarði. Það er hins vegar ekki um langan veg að fara fyrir Vegagerðina á Akureyri til að halda Víkurskarði opnu og hálkuverja veginn þegar á þarf að halda. Stundum verðum við Íslendingar líka að sætta okkur við að vegir lokist vegna veðurfarsins hér á landi.

Óskhyggja eða blekkingar

Fullyrðingar um að vegatollar standi undir gerð Vaðlaheiðarganga eru í besta falli óskhyggja. Í versta falli eru áhugamenn um gerð ganganna vísvitandi að blekkja stjórnvöld, vitandi að galtómur ríkissjóður mun þurfa að taka á sig verulegan hluta af kostnaðinum. Þetta eru engar smáræðis tölur, því að vextir af framkvæmdaláni til 30 ára verða á bilinu 6-10 milljarðar króna og rekstur ganganna á þessu tímabili mun kosta 2-3 milljarða króna.

Vafalítið mun þjóðarbúskapurinn dafna fyrr en síðar, þannig að sameiginlegur sjóður landsmanna ráði við nauðsynlegar samgöngubætur. En á meðan ekki finnast peningar til að ráðast í aðkallandi úrbætur í umferðaröryggi, til að mynda á Suðurlandsvegi, þá er auðvitað ótækt að fara að lauma mörg hundruð milljón króna árlegum skuldbindingum inn á ríkissjóð vegna Vaðlaheiðarganga sem eru langt því frá að teljast með brýnustu vegaframkvæmdum.