Skatttekjur af bílum

Yfir 60 milljarðar króna í skatta á bíleigendur en aðeins um 12 milljörðum króna varið til viðhalds og lagningar vega

Í Morgunblaðinu í dag er athyglisverð frétt undir fyrirsögninni ,,Ríkið hefur eigendur bíla að féþúfu”. Í fréttinni er m.a. fjallað um skatttekjur af bílum og umferð og takmörkuð framlög ríkisins til uppbyggingar og viðhalds á íslenska vegakerfinu. Blaðamaður styðst við tölulega samantekt frá FÍB úr fjárlögum og vegaáætlun. Fram kemur að áætlað sé að tekjur ríkissjóðs af bílum og umferð verði a.m.k. 63,7 milljarðar króna á þessu ári. Líklega er upphæðin verulega vanáætluð þar sem mikill vöxtur er í innflutningi ökutækja til landsins og umferð hefur einnig aukist hressilega.


Í Morgunblaðinu í dag kemur einnig fram að fyrstu sex mánuði ársins hafi um 16.000 ökutæki verið flutt inn til landsins en þau voru 11.000 á sama tíma fyrra sem gerir 43 prósent aukningu á milli ára. Í forsendum fjárlaga 2016 var gert ráð fyrir um 17% tekjuaukningu ríkisins af vörugjöldum og virðisaukaskatti af innfluttum ökutækjum samanborið við 2015.
Umferð um vegi landsins skv. spálíkani Vegagerðarinnar sem birt var í maí sl. gerir ráð fyrir því að umferðin á Hringveginum geti aukist um 8,5% 2016 miðað við árið 2015. Gangi þessi spá eftir er um met að ræða. Núverandi met er 6,8% aukning á milli áranna 2007 og 2008. Vegagerðin telur að aukinn hagvöxtur, mikil fjölgun ferðamanna og hagstætt heimsmarkaðsverð á eldsneyti hafi mest áhrif á þessa þróun. Umferðin hefur farið verulega framúr áætlunum sem aftur skilar sé í söluaukningu á eldsneyti og auknum tekjum í ríkissjóð en einnig auknu niðurbroti vega.


Í Morgunblaðinu er lagt frekar út frá fyrirliggjandi opinberum tölum og fram kemur að í ár sé áætlað að verja til viðhalds vega og lagningar nýrra vega um 12 milljörðum króna. ,,Að skaffa vegi undir bílaflotann kostar því einn fimmta af því sem ríkið tekur úr vasa þeirra sem eiga og reka bíl”. Síðan leggur blaðamaðurinn út frá því að hver bíleignadi sé að borga að meðaltali ríflega 300 þúsund krónur í skatt til ríkisins vegna eignar og reksturs bílsins en aðeins um 60 þúsund krónur af því fari til nýbyggingar og viðhalds vega.


Allar þessar tölur eru sláandi en alvarlegast er getuleysi stjórnvalda varðandi uppbyggingu innviða og ljóst að núverandi framlög duga engan vegin til að halda í horfinu hvað þá að byggja upp til framtíðar. Fjögurra ára samgönguáætlun 2015—2018 hefur ekki enn náð í gegnum Alþingi Íslendinga. Hvaða skilaboð eru þetta á kosningaári?