Skeljungur hækkar bensín og dísilolíu
10.07.2007
Skeljungur hækkaði verð á bensíni og dísilolíu til sinna viðskiptavina í gær. Bensínið hækkaði um 1,70 krónur á lítra og kostar nú með þjónustu 131,30 krónur og dísilolían hækkaði um 0,90 krónur hver lítri og kostar nú 130,20 krónur með þjónustu. Eftir sem áður er algengasti sjálfsafgreiðsluafslátturinn 5 krónur á lítra. Þegar þetta er ritað hafa hin olíufélögin ekki breytt sínum verðum.
Fréttir hafa borist af hækkun á hráolíu nú síðustu daga en vegna hagstæðrar gengisþróunar íslensku krónunnar gagnvart bandaríkjadal þá hefur kostnaðarverð bensíns og dísilolíu ekki aukist inn á íslenska markaðinn. Kostnaðarverð hvers lítra af bensíni í síðustu viku var 50 aurum lægra en meðalkostnarðverð hvers lítra í júnímánuði. Kostnaðarverð dísilolíu var einnig lægra í síðustu viku samanborið við meðalverðið í júnímánuði. Hvers vegna er þá Skeljungur að hækka bensínið um 1,70 krónur á lítra og dísilolíuna um 90 aura? Eina skýringin virðist vera hækkun álagningar.