Skerpt verður á sérstöðu Volvo
Sænskir blaðamenn eru ánægðir með nýja Volvo-forstjórann Stefan Jacoby sem sem kom til starfa þegar nýr eigandi, Geely í Kína, eignaðist Volvo Personvagnar AB í Svíþjóð. Jacoby hélt sinn fyrsta blaðamannafund í vikunni og brá ekki svip þegar hann var stunginn af vespu í miðju sjónvarpsviðtali.
Þegar hann var spurður hverskonar bíla Volvo myndi byggja í framtíðinni sagði hann: -Bíðið aðeins, þetta er nú ekki nema þriðji dagurinn minn í vinnunni. Ég segi ykkur það síðar.- Jacoby sagði hinsvegar að framvegis yrði aðaláherslan á framleiðsluna og framleiðsluvörurnar sjálfar. –Við verðum að vera í stakk búin til að afhenda þær framleiðsluvörur sem kaupendur vilja fá, vörur sem stöðugt verða betri og betri. Framleiðslan er það sem máli skiptir og þótt ég sé reyndur sem stjórnandi og markaðsmaður er ég fyrst og fremst bílamaður með brennandi áhuga á bílum,- sagði Jacoby.
Jacoby ræddi síðan grunngildi Volvo og sagði að nú lægi fyrir hjá stjórnendum og starfsmönnum að fara vel ofan í saumana á sjálfu vörumerkinu, Volvo, og hvað það stæði fyrir og ætti að standa fyrir. Hann sagði að núverandi ímynd Volvo væri ekki nógu sterk og skýr. Bílarnir væru skilgreindir í svokallaðan premium-flokk bíla eða einskonar fyrsta flokk, en hvað þýddi þetta premium orð? Lúxus og þægindi eða eitthvað allt annað? –Við verðum að skilgreina hvaða merkingu það hefur fyrir Volvo. Ef við ætlum bara að herma eftir því sem aðrir framleiðendur gæðabíla gera er ekki gott mál. Volvo þarf að vera sérstakur og einstakur bíll. Þetta er lykillinn að framtíð okkar,- sagði Jacoby.
Sænsku blaðamennirnir spurðu hann þvínæst hvaða bílar bæru honum minnisstæðastir. Hann nefndi fyrst Bentley, þá Porsche, BMW M5, Toyota Prius og loks Volvo Amazon. Um orkugjafa framtíðarbílanna sagði hann að bílaheimurinn væri að færast á byrjunarreit aftur. Í byrjun 20 aldar fyrirfannst varla bensín, dísilolía eða rafmagn né aðrir orkugjafar. Hasnn sagði að rafmagnið væri lang líklegasti framtíðarorkugjafi framtíðarbílanna. Umskiptin væru um það bil að hefjast og óhjákvæmilegt væri að aðlaga sig því. Hann var þá spurður hvort þetta þýddi að Volvo ætlaði hella sér út í framleiðslu rafbíla, en því vildi hann ekki svara að svo stöddu.