Skítugar götur, sandur og ryk skapa slæm loftgæði
Mjög stillt og þurrt veður hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í þó nokkurn tíma. Á vefsíðu FÍB hefur verið fjallað um aukinn styrk svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs væri hátt auk þess sem há gildi koma fram í mælingum á styrk brennisteinsvetnis. Veðurspár gera ekki ráð fyrir miklum breytingum á veðri næstu daga svo áfram má búast við slæmum loftgæðum.
Heilbrigðiseftirlitið gaf út viðvörun í gær og vakti athygli á slæmum loftgæðum. Þeim sem eru viðkvæmir í öndunarfærum og börnum var ráðlagt að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna.
Götur og gangstéttar ekki hreinsaðar sem skildi
FÍB veit m.a. að börnum í Vesturbæjarskóla var bannað að leika úti við og var þeim tjáð að það væri vegna ryks af völdum nagladekkja. Þegar nánar er skoðað eru götur í kringum skólann skítugar, sandur og ryk liggur á gangstéttum. Þetta ástand gæti auðveldlega skapað slæm loftgæði. Þarna á svæðinu hafa götur og gangstéttar ekki verið hreinsaðar.
Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að ástand gatna er mjög slæmt eftir veturinn. Göturnar eru ennfremur mjög skítugar sem eykur mengunina á helstu umferðaræðum. Í þessari viku voru fjölfarnar götur rykbundnar til að bæta loftgæði í borginni. Magnesíum klóríði sem reynst hefur vel til rykbindingar var úðað á stofnbrautir í Reykjavík og fleiri fjölfarnar götur eins og Bústaðaveg, Suðurlandsbraut og Grensásveg.
Ýmsir þættir eru þess valdandi að styrkur svifryks hækkar. Í því sambandi er hægt að benda á hálkuvarnir sem þyrla upp setlögum með tímanum og ennfremur berst mikið ryk frá óvörðum byggingarsvæðum og þungum vörubílum sem bera aðföng að og frá byggingasvæðum innan um þétta byggð.
Umhverfisvænum bílum hefur fjölgað mikið
Þrátt fyrir að bílum hafi fjölgað mikið á Íslandi undanfarin ár og umferð þeirra aukist, hafi útblástursmengun frá bílum ekki aukist heldur þvert á móti minnkað. Umhverfisvænum bílum hefur fjölgað mikið síðustu misseri og það hafa verið stórstígar framfarir í hönnun, smíði bíla og bílvéla á undanförnum árum.