Skoda á miklu flugi
Skodabílar eru nú lang veigamesta útflutningsvara Tékklands. Allar horfur eru á að á þessu ári muni sala nýrra Skodabifreiða í heiminum losa eina milljón bíla sem er það lang mesta nokkru sinni. Sala Skodabíla hefur vaxið ört mörg undanfarin ár og ekki er annað í kortunum en hann haldi áfram á þessu ári. Á nýliðnu ári seldust um 900 þúsund Skódar í heiminum og Skódamenn stefna að því að ná 1,5 milljón bíla árssölu fyrir 2018.
Um 5 prósenta samdráttur varð á fyrri helmingi nýliðins árs miðað við sama tímabil ársins á undan. Það er rakið til þess að væntanleg var hin nýja kynslóð aðal sölubílsins, Skoda Octavia og kaupendur vildu heldur bíða hinnar nýju. Þegar hún svo kom á markað síðsumars, auk þess sem nýjar og nýuppfærðar gerðir bíla komu fram, jókst salan á ný. Nýja Oktavían fékk mjög góðar viðtökur og hefur nú verið valin bíll ársins 2014 á Íslandi, Danmörku og víðar.
Það er af sem áður var þegar Skoda var einskonar samnefnari yfir ódýra og heldur óskemmtilega austantjaldsbíla sem biluðu oft og entust stutt. Skódabílar dagsins í dag byggja á tækni frá Volkswagen og þykja vel byggðir og vandaðir og verð þeirra mjög hagstætt miðað við marga sambærilega bíla.