Skoda Fabia rallbíll handa almenningi
Skoda bílaverksmiðjurnar sem upphaflega spruttu upp úr reiðhjólasmiðju sem átti sitt blómaskeið á 19. öldinni, á sér hvorki meira né minna en 110 ára sögu í bílasporti. Skoda sem gekk í endurnýjun lífdaga eftir fall járntjaldsins er enn í bílasportinu og á þessu ári hefur Skoda Fabia Super 2000 verið mjög sigursæll í margri rallkeppninni.
Upp á það vilja Skódamenn nú halda með því að bjóða upp á sérstaka 200 bíla seríu af Skoda RS í nokkurskonar almennings-rall útgáfu sem nefnist Fabia RS Edition S2000. Þessi bíll verður boðinn í grænum rall-lit, með hvítum toppi og á hvítum álfelgum sem er sama útlit og á hinum sigursæla rallbíl.
RS er skammstöfun fyrir Rally Sport en RS bílarnir hjá Skoda eru þeir aflmestu og sportlegustu. Fabia RS er með 180 ha. TSI bensínvél, DSG gírkassa og skiptifetlum á stýrinu. Fabia RS bílarnir eru með ESC stöðugleikabúnaði og til viðbótar honum er svokallað XDS kerfi sem skynjar þegar bíllinn skrensar í beygjum og hemlar þá á sálfvirkan hátt hjólunum á þeirri hlið bílsins sem vísar inn í beygjuna og auðveldar þannig bílnum að ná beygjunni.
Um komandi helgi skýrist hvort rall-Fabían hreppir enn einn sigurinn á árinu því að þá fer fram keppni í SWRC (Super World Rally Championship). Svíinn Patrik Sandell á Skoda Fabia er talinn eiga þar miklar sigurlíkur.