Skoda framleiðir nýja Up-fólksvagninn

VW Up, nýi smábíllinn sem mjög mikla eftirtekt fékk á bílasýningunni í Frankfurt sem nýlega er lokið, verður ekki bara framleiddur undir merkjum Volkswagen heldur líka Skoda. Hjá Skoda nefnist bíllinn Citigo. Citigo kemur á heimamarkað í Tékklandi strax á þessu hausti og á aðra Evrópumarkaði næsta sumar og haust.

http://www.fib.is/myndir/Skoda-Citigo-2.jpg

Skoda Citigo er nánast alveg sami bíll og VW Up. Einungis smá sjónarmunur verður á framenda og grilli og innréttingum. Vélar, gangverk og tæknibúnaður verður að öllu leyti hið sama hvort sem bílarnir heita Skoda eða Volkswagen og ytri málin nánast þau sömu eða lengd 3,56 metrar, 1,65 metrar á breidd og 1,48 m á hæð. Bíllinn verður framleiddur undir báðum vörumerkjum, Skoda og VW, í einni og sömu verksmiðjunni sem er Skodaverksmiðjan í Bratislava í Slóvakíu.

Skoda Citigo er eins og systurbíllinn VW Up, hugsaður fyrst og fremst sem þéttbýlisbíll sem lítið fer fyrir að utanverðu, en með ágætt innanrými engu að síður. Þá eru aksturseiginleikar hans ekki bara hannaðir fyrir borgarsnattið, heldur líka fyrir þá sem þurfa að skjótast út á hraðbrautir og þjóðvegi eða vilja ferðast í sumarleyfinu. VW UP/Skoda Citigo er ætlað að höfða til allra aldurshópa, bæði yngri og eldri. Sem Skoda Citigo verða tvær nýjar þriggja strokka bensínvélar, 60 eða 70 hestöfl. Sú minni gefur frá sér 105 grömm af CO2 pr. km en sú stærri 108 g. Báðar fást með svonefndri  GreenTec tækni og með henni er útblásturinn 97 g á km annarsvegar og 98 hinsvegar. Handskiptur gírkassi er staðalbúnaður en fáanlegur  verður búnaður sem skiptir um gír fyrir ökumann.

 Ekki frekar en í VW útgáfunni verður öryggisbúnaður í Skódanum skorinn við nögl.  ESC skrikvörn verður staðalbúnaður og fáanlegt verður í báða svokallað City Safe Drive-kerfi sem hemlar bílnum sjálfvirkt er ökumaður gleymir sér og árekstur er yfirvofandi. Hjá Skoda binda menn miklar vonir við Citigo og reikna með að selja samtals 1,5 milljón bíla á ári frá og með 2018. Hlutfall Citigo í þeim áætlunum er verulegt. Þess má geta að á sl. ári seldi Skoda alls 760 þúsund bíla sem er hið mesta í sögu Skoda.