Skoda Octavia selst best í sex Evrópulöndum
Það er ýmsan fróðleik að finna þegar rýnt er í sölutölur bifreiða í Evrópu. Þar kemur í ljós að Skoda Octavia er í efsta sæti í sex löndum hvað sölu áhrærir. Á Íslandi hafa Toyota Yaris og Skoda Octavia verið í efstu sætunum undanfarin ár.
Skoda Octavia trónir í efsta sætinu í Tékklandi, Eistlandi, Póllandi, Króatíu, Finnlandi og Sviss. Volkswagen Golf selst best í fimm löndum, Þýskalandi, Austurríki, Lúxemborg, Lettlandi og Belgíu.
Það er fyrirtækið JATO Dynamics, sem sérhæfir sig í upplýsingatækni á bílum, sem birti þessar tölur. Fyrirtækið hefur aðsetur í London og rekur skrifstofur í 45 löndum víðs vegar um Evrópu.
Þegar rýnt er enn frekar í tölur er Peugeot 208 vinsælastur í Danmörku og Toyota Yaris í Grikklandi. Renault Clio er söluhæstur í Frakklandi og ennfremur í Portúgal og Slóveníu.
Það ætti ekki að koma á óvart að Volvo er vinsælastur í Svíþjóð og Ford Fiesta á Bretlandseyjum. Heimabílar tróna nánast undantekningarlaust í efstu sætunum í sínu landi.