Skoda Roomster – fyrsti jepplingur Skoda
27.12.2005
Fyrsti jepplingur Skoda kemur á evrópumarkað á síðari hluta næsta árs. Bíllinn veðrur frumsýndur sem framleiðslubíll á bílasýningnunni í Genf í marsmánuði. Roomster var fyrst sýndur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Frankfurt í september 2003 og vakti þá mikla athygli. Og þótt Skoda hafi frá endurreisninni í kjölfar falls Sovétríkjanna og sovésks hernáms Tékkóslóvakíu notað og þar með endurnýtt gömul gerðarheiti á bíla sína, nofn eins og Octavia, Felicia, Superb og Fabia þá verður það ekki gert með nýja jepplinginn, hann mun halda því nafni sem hann var sýndur undir sem hugmyndarbíll í Frankfurt um árið og heita Roomster.
Nafninu er ætlað að vísa til mikils rýmis í bílnum en ekki er víst að hann verði eins í útliti og hugmyndarbíllinn sem svo mikla athygli vakti í Frankfurt 2003. Engar myndir hafa sloppið út í fjölmiðla af nýja Roomsternum og þær myndir sem hér fylgja eru af hugmyndarbílnum títtnefnda.
En líklegt þykir að hinn nýi Roomster verði í útlifi eitthvað í ætt við Toyota Yaris Verso. Það eina sem Skoda hefur látið frá sér heyrast um nýja bílinn er að honum sé ætlað að keppa við Opel Meriva. Búist er við nýja bílnum á markað í norðurhluta Evrópu í október til nóvember 2006.