Skoda Roomster sleginn af
Fjölnotabíllinn Skoda Roomster er ekki lengur framleiddur. Framleiðslunni var hætt í desember sl. og ólíklegt að annar fjölnotabíll leysi hann af hólmi samkvæmt frétt Automotive News.. Ástæðan er sú að sala fjölnotabíla hefur dalað í Evrópu frá því sem var fyrir áratug. Jepplingarnir eru í tísku um þessar mundir og er tveggja slíkra bíla að vænta frá Skoda á þessu ári og því næsta.
Skoda Roomster var frá upphafi einskonar fjölnotaútgáfa Skoda Fabia smábílsins, mjög rúmgóður með ríkulegt farangursrými og allgóða aksturseiginleika og verðið var alla tíð hagstætt. Hann var fyrst kynntur vorið 2006 og hefur verið óbreyttur í útliti allar götur síðan og níu ára framleiðsla sama bílsins án breytinga þykir mjög langur tími nú til dags..