Skoda tengiltvinn-jepplingur
Skoda sýnir frumgerð tengiltvinn-jepplingsins Vision S á bílasýningunni í Genf sem senn verður opnuð. Genfarsýningin er viðeigandi staður því þar viðra bílaframleiðendur í Evrópu nýjungar sínar og framtíðarsýn.
Skoda hefur til þessa farið sér að engu óðslega í rafbíla- og tvíorkutækninni en nú er virðist það vera að breytast, eins og hjá flestum öðrum bílaframleiðendum sem veðja með vaxandi þunga á rafmagnið. Skoda Vision S sem að vísu er hugmyndabíll eða frumgerð, er tengiltvinnbíll með 1,4 l 156 ha. TSI bensínvél og DSG sjálfskiptingu. Auk bensínvélarinnar er 54 ha. rafmótor sem knýr framhjólin ásamt bensínvélinni. Aftur í er svo annar rafmótor, 115 ha, sem knýr afturhjólin. Vélaraflið er því samtals 225 hö.
Mæld meðal bensíneyðsla bílsins samkvæmt NEDC gerðarviðurkenningaraðferðinni er sögð rétt undir tveimur lítrum á hundraðið og CO2 útblástursgildi pr. kílómetra er 45 grömm. Er þá miðað við að rafgeymar séu fullhlaðnir þegar mæling hefst. Uppgefið drægi á rafmagninu einu er 50 kílómetrar.