Skráðum ölvunarakstursbrotum fjölgar
Umferðarlagabrotum fjölgaði í júlí miðað við fyrri mánuði. Skráð voru 1.273 umferðarlagabrot í júlí en um 1.239 í júní. Þar af fjölgaði tilkynningum um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna nokkuð. Skráð voru 189 brot í júlí en 163 í júní síðastliðnum.
Þetta er því annar mánuðurinn í röð þar sem þessi brot eru flest frá upphafi hjá embættinu. Þetta kemur fram í nýrri mánaðaskýrslu um afbrotatölfræði frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Það sem af er árinu hefur skráðum ölvunarakstursbrotum fjölgað um 40% og að fíkniefnaakstursbrotum fjölgað um 59% miðað við meðaltal á sama tímabili síðastliðin þrjú ár.
Í júlí voru skráð 102 brot þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.