Skrifað undir verksamning um breikkun Reykjanesbrautar

Vegagerðin og Ístak skrifuðu fyrir helgina undir verksamning um breikkun Reykjanesbrautar (41), frá Kaldárselsvegi vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót. Fjögur tilboð bárust í verkið. Vegagerðin gekk til samninga við Ístak eftir ítarlegt mat á tilboðum.Samkvæmt áætlunum eiga framkvæmdir að hefjast nú í byrjun maí. Verklok eru áætluð 1. nóvember 2020. Við sama tækifæri var einnig skrifað undir samninga við Mannvit um eftirlit með verkinu.

Nánari lýsing á framkvæmdum við verkið

Reykjanesbraut (41), Kaldárselsvegur – Krýsuvíkurvegur. Tvöföldun brautarinnar er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Hafnarfjarðarbæjar. Undirbúningur að tvöfölduninni hófst árið 2013 þegar undirgöng fyrir göngu- og hjólastíg voru gerð við Suðurbraut og svo árið 2017 þegar mislæg gatnamót voru gerð við Krýsuvíkurveg.

Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að Reykjanesbraut verður tvöfölduð á kaflanum frá Kaldárselsvegi vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót með því að byggja nýja akbraut sunnan núverandi vegar. Brautin verður með þriggja metra breiða miðeyju milli akbrauta með vegriðum báðum megin.

Brautin verður grafin niður allt að 4 m á tveimur köflum; í fyrsta lagi á kaflanum frá núverandi göngubrú við Ásland og að Strandgötu og í öðru lagi gegnum Hvaleyrarholtið frá Þorlákstúni og vestur fyrir nýju undirgöngin við Suðurbraut.

Á þeim kafla verður brautin einnig sveigð lítillega til suðurs. Það skapar svigrúm fyrir hugsanlega færslu á Suðurbraut við Hvaleyrarskóla. Tvenn nýleg undirgöng undir Reykjanesbraut, fyrir gangandi við Suðurbraut og undirgöngin í mislægu gatnamótunum við Krýsuvíkurveg, eru byggð fyrir tvöfalda Reykjanesbraut. Hins vegar þarf að breikka brúna yfir Strandgötu og er það hluti af framkvæmdunum.

Gönguleiðir

Gerðar verða tvær nýjar göngubrýr yfir Reykjanesbraut. Sú fyrri verður milli Hvamma og Áslands á móts við Álftaás. Sú seinni kemur í stað núverandi undirganga við Þorlákstún. Brýrnar verða stálbogabrýr og spanna brautina í einu hafi.

Hljóðvarnir

Fram kemurí tilkynningu frá Vegagerðinni að samhliða breikkun Reykjanesbrautar verður ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að minnka umferðarhávaða í nágrenni brautarinnar. Ný hljóðmön verður gerð milli Reykjanesbrautar og Ásbrautar á móts við Erluás. Til að koma henni fyrir þarf að endurgera göngustíginn frá enda núverandi göngubrúar og upp á Goðatorg. Einnig verður hljóðmönin við Ásbraut á móts við Álftaás hækkuð þar sem nýja göngubrúin kemur.

Hljóðmanir við Hvamma verða endurgerðar. Þar verða notuð svokölluð jarðvegshólf næst brautinni til að ná fram betri hljóðvist. Við Suðurhvamm eru einnig reistir glerveggir ofan á möninni sem ná inn á Strandgötu. Auk þess verður settur hljóðveggur á norðurkant Strandgötubrúar og og milli rampanna í gatnamótunum. Þá er einnig settur hljóðveggur úr timbri meðfram Þúfubarði þar sem nú er girðing.