Skynjarar í dekkjunum
11.05.2005
Hollenska dekkjaframleiðslufyrirtækið Vredestein rannsakar nú gagnsemi þess að að koma fyrir skynjurum í dekkin undir bílnum. Skynjararnir hafa þráðlaust samband við m.a. ABS hemlakerfið og ESP stöðugleikakerfið í stjórntölvu bílsins. Dekkin eiga þannig að geta látið vita í tæka tíð þegar veggripið hverfur í hálku og um atriði eins og hvort loftþrýstingurinn er of lítill – það sé að síga úr dekki og/eða dekkið er að hitna óeðlilega. Rob Oudshoorn forstjóri Vredestein bindur vonir við þessar tilraunir og segir að skynvædd dekk séu á næsta leiti. Tilraunirnar eru unnar af tæknifólki frá Vredestein í náinni samvinnu við hollenska tækniháskóla og framleiðendur tölvu- og hugbúnaðar.