Skynjarar sem stjórna neyðarhemlun bílsins voru ekki í gangi
Það vakti töluverða umræðu þegar sjálfkeyrandi bifreið ók á gangandi vegfaranda í Arizona í Bandaríkjunum í mars sl. með þeim afleiðingum að 49 ára gömul kona lést. Um var að ræða fyrsta banaslysið þar sem sjálfkeyrandi bíll veldur banaslysi en umrædd bifreið var frá akstursþjónustu Uber. Konan var að reiða hjól við gangbraut þegar slysið varð.
Málið vakti mikla athygli og ákvað Uber í kjölfar slyssins að stöðva allar tilraunir sínar á sjálfkeyrandi bílum í nokkrum borgum í Bandaríkjunum og Kanada. Samgönguöryggisnefnd á vegum bandarískra stjórnvalda, sem annast rannsókn slyssins, kemst að þeirri niðurstöðu í bráðabirgðaskýrslu að skynjarar sem áttu að stjórna neyðarhemlum bílsins hafi ekki verið í gangi. Ennfremur að þeir hefðu ekki komið auga á vegfarandann í tækja tíð. Neyðarhemlun bílsins virkaði ekki sem skildi.
Skynjarar bifreiðarinnar, sem var af tegundinni Volvo XC 90, voru óvirkir en Uber var að prófa sinn eigin búnað sem þeir hafa verið að þróa. Ef allt hefði virkað sem skildi átti tölvan að gefa merki um nauðhemlun rúmlega 1,3 sekúndum fyrir atburðinn. Við rannsókn á slysinu kemur hins vegar í ljós að Uber hafði aftengt neyðarhemlunarbúnaðinn til að koma í veg fyrir að bílinn brygðist á óeðlilegan hátt við þáttum sem snúa að hemlun.
Við rannsókn á slysinu hafa fleiri þættir komið í ljós sem gætu hafa ollið þessu hörmulega slysi. Ökumaðurinn gæti hafa sýnt gáleysi og athygli hans við aksturinn var ábótavant. Hann hefði getað gripið inn í og komið í veg fyrir slysið. Í sjálfkeyrandi bílum geta ökumenn tekið stjórnina þegar hættuástand kemur skyndilega upp.
Bryant Smith, lagaprófessor við háskólann í Suður-Karólínu sem sérhæfir sig í reglugerðum er lúta að sjálfkeyrandi bílum, heldur því fram að ef bremsukerfi Volvo hefði verið notað í stað þess sem Uber notar hefði áreksturinn samt sem áður verið óhjákvæmilegur.
Samkvæmt hans útreikningum hefði bíllinn þó lent á konunni á 24 kílómetra hraða ef kerfi Volvo hefði verið notað í stað 69 kílómetra hraða eins og raunin var með kerfi Uber. Þegar þessar staðreyndir séu hafðar til hliðsjónar hefði ef til vill verið hægt að koma í veg fyrir banaslys ef kerfi Volvo hefði verið notað.