Skynjari sem vaktar geyminn
Bosch hefur hafið framleiðslu á mjög þörfum nytjahlut fyrir flókna tölvustýrða nútímabíla. Þetta er skynjari sem settur er á plúspólinn á geyminum og vaktar skynjarinn geyminn og allt hans ástand. Skynjarinn fylgist með og stjórnar öllu straumflæði út af geyminum og inn á hann, hann fylgist með rafspennu og hitastigi og reiknar jafnharðan út afköst og getu geymisins hverju sinni sem og ástand hans og hvenær tími er kominn til að skipta honum út. Ef t.d. gleymist að slökkva á inniljósi eða ljósi í skottinu eða ef einhver straumnotkun á sér stað sér skynjarinn einfaldlega um að rjúfa samband milli geymis og rafkerfis þegar bíllinn stendur ónotaður.
Skynjarinn tryggir með þessu að þegar bíll hefur staðið óhreyfður um skemmri eða lengri tíma er enn nægur straumur á geyminum til að ræsa bílinn. Hann kemur þannig sömuleiðis í veg fyrir vandræði sem oft skapast vegna þess að geymir tæmist og allt tölvukerfi bílsins ruglast af þeim sökum að meira eða minna leyti.
Skynjarinn nefnist Electronic Battery Sensor, eða EBS. Hann og hugbúnaður hans er þróað af tæknifólki Bosch í samvinnu við rafgeymaframleiðandann Varta. Hann er tengdur raf- og tölvukerfi bílsins og þegar ræsa á bílinn svarar skynjarinn boðum frá samlæsingarfjarstýringu og tengir aftur geyminn við rafkerfi bílsins.
Samkvæmt frétt frá Bosch er þessi nýi EBS skynjari eiginlega ekki til eftirá-ísetningar í bíla vegna þess að hann verður að vera tengdur við tölvukerfi bílsins og vera aðlagaður að því. Skynjarinn sé ekki síst nauðsynlegur í bílum sem drepa sjálfvirkt á vélinni þegar stöðvað er og ræsa hana sjálfvirkt á ný þegar ekið er af stað aftur. Rafkerfi bíla sé sífellt að verða flóknara og það kalli á stöðugan og öruggan flutning rafmagns að og frá geyminum og að því stuðli þessi búnaður.