Skýrari leiðbeiningar til ökumanna

The image “http://www.fib.is/myndir/Hradaskilti.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Vegagerðin hefur ákveðið að setja upp merki sem sýna leiðbeinandi hámarkshraða og verða þau sett upp við stofnvegi landsins.  Þetta verkefni er eitt verkefna umferðaröryggisáætlunar til ársins 2008, sem var samþykkt á Alþingi sem hluti samgönguáætlunar á síðasta vori, eins og segir í frétt frá vegamálastjóra.
Merkið er upplýsingamerki og sett upp með öðrum merkjum sem gefa til kynna hvað er framundan. Slík merki verða sett upp á þeim stöðum á vegum landsins, þar sem ástæða þykir til að vekja athygli á að akstur á leyfðum hámarkshraða sé óráðlegur vegna akstursaðstæðna, sem geta verið krappar beygjur, blindhæðir, brattar brekkur eða annað það sem hætta getur fylgt. Þannig verður settur lægri leiðbeinandi hámarkshraði á slíkum stöðum. Ákvörðun um hvar merkin eru sett upp er m.a. tekin á grundvelli útreikninga á beygjum og þannig fundinn hæfilegur hraði.
Í júlímánuði í ár er gert ráð fyrir að merkja þjóðveg 1, aðalvegi á Snæfellsnesi, Ólafsfjarðarveg, Norðausturveg að Húsavík, Seyðisfjarðarveg, Norðfjarðarveg, Vestfjarðaveg að Reykhólasveitarvegi, Suðurfjarðaveg og helstu aðalvegi á Suður- og Vesturlandi. Á næsta ári verða svo allir aðrir stofnvegir merktir.
Markmiðið með því að setja þessi merki upp er að auka umferðaröryggi og jafnframt þægindi vegfarenda. Á undanförnum misserum hefur meðalhraði á vegum landsins aukist en á svo miklum hraða þarf lítið útaf að bera ef ekki á illa að fara.  Fjöldi erlendra ferðamanna aka um vegi landsins og vonir standa til að þessi ráðstöfun auki öryggi þeirra.
The image “http://www.fib.is/myndir/Leidbeinandi.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.