Sláandi úttekt DV á innviðaskuldinni við vegakerfið

Vegakerfið hefur verið svikið um 580 milljarða króna á síðasta áratug samkvæmt úttekt Eyjunnar á DV.is. Í grein Ólafs Arnarsonar blaðamanns sem m.a. byggir á gögnum frá FÍB kemur fram að frá 2015 hafi ríkið haft um 750 milljarða króna í tekjur af ökutækjum og umferð. Á sama tíma hafi um 290 milljarðar króna runnið til vegamála. Framreiknað til núvirðis sé munurinn 580 milljarðar króna, sem Ólafur segir innviðaskuld ríkisins gagnvart bíleigendum.

Í greininni á Eyjunni kemur einnig fram að á síðasta áratug hafi tekjur af ökutækjum aukist til muna ár frá ári á meðan útgjöld til vegamála hafi dregist saman.

Fram kemur á Eyjunni að í fyrra hafi tekjur ríkissjóðs af ökutækjum verið samtals um 95,5 milljarðar króna. Útgjöld til vegamála hafi numið þriðjungi þeirrar upphæðar.

Þá bendir blaðamaður Eyjunnar á að vegakerfi landsins sé þegar í óverjanlegu ástandi og tekur þar undir gagnrýni FÍB og fjölmargra annarra aðila. Ekki síst eru það stórauknir þungaflutningar á landsbyggðinni sem slíta þjóðvegunum.

Blaðamaður Eyjunnar segir síðan: „Er nú svo komið að íslensku þjóðvegirnir eru að molna fyrir augum okkar. Lífshættulegt er orðið að aka um vegina. Þá ranka ráðamenn, sem svikið hafa þjóðina um innviði árum og áratugum saman, við sér og segja að eitthvað verði að gera í málinu. Þeir leggja til auknar álögur á bíleigendur til að mæta fyrirsjáanlega auknum kostnaði við vegakerfið. Ráðamenn vilja leggja á vegatolla til að fjármagna viðhald og nýframkvæmdir í vegakerfinu. Skattpína á enn frekar skattpíndasta hóp þjóðarinnar. Hópurinn sem á tíu árum hefur borgað næstum þúsund milljarða til ríkisins og fengið þriðjung þeirrar upphæðar í vegakerfið á að taka upp veskið. Vilji fólk ekki vera í bráðri lífshættu hvenær sem það hættir sér út á þjóðveg skal það vesgú fá að borga fyrir það.“

Að endingu vitnar Eyjan í samtal við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB: „Það er á ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis að vegakerfið hefur verið látið sitja á hakanum allt of lengi. Auknu álagi með uppbyggingu atvinnustarfsemi og vexti í ferðaþjónustu hefur engan veginn verið mætt á liðnum árum. Að láta innviði grotna niður er lántaka með afborgunum inn í framtíðina.“