Slæmar og góðar bílaauglýsingar
Bílaauglýsingamyndir eru að stórum hluta grámygluleg leiðindi þar sem bílar aka um hlykkjótta vegi og mannsrödd fer með ýkjur. Þetta er dómur sænsks auglýsinga- og vörumerkjafræðings sem bendir á nýjar auglýsingar frá Renault og Opel þessu til staðfestingar.
Margir bílaframleiðendur eyða gríðarlegum fjárhæðum í markaðssetningu nýrra bíla. Auglýsingafræðingurinn Carin Fredlund telur sjónvarpsauglýsingar þeirra velflestar lítils virði. Myndmálið sé oftast nokkurnveginn hið sama; bugðóttir vegir í bland við ýkjur. Flestar séu þessar auglýsingamyndir framleiddar af alþjóðlegum auglýsingafyrirtækjum og auglýsingunum ætlað að tala til allra hvar sem er í heiminum. En einmitt þess vegna höfði þær eiginlega ekki til nokkurrar manneskju og segi engum nokkurn skapaðan hlut. En þar sem samkeppnin í bílaiðnaðinum sé mjög hörð og í rauninni sé alls ekki olnbogarými fyrir alla sem þar eru nú, grípi menn til ýmissa ráða til að vekja athygli á sinni framleiðslu og þau ráð séu ekki öll gæfuleg.
Carin Fredlund nefnir Opel sem dæmi um bílaframleiðanda sem á undir högg að sækja. Ekki séu mörg ár síðan markaðshlutdeild Opel í Evrópu var í kring um 10 prósent. Síðan hefur Opel farið mjög halloka á flestum sviðum vegna þess að ímynd fyrirtækisins er sérkennalaus og óáhugaverður grámi. „Bílaiðnaðurinn er heimur þar sem hinir veiku, hljóðu og huglausu eru barðir niður fyrr eða síðar,“ segir Fredlund við sænska Netsjónvarpið Dagens Media.
Hún bendir á að hinar grámyglulegu auglýsingar séu í besta falli gagnslausar og í versta falli spilli þær ímyndinni. Dæmi um afar vonda auglýsingu nefnir hún nýja sjónvarpsauglýsingu um Renault Clio þar látið er í veðri vaka að enginn geti gleymt því augnabliki þegar hinn nýja Renault Clio bar fyrir augu. Fullyrðingin sé algert bull því að bíllinn er sérkennalaus og lítur nokkurnveginn eins út og allir aðrir bílar í sama stærðarflokki.
Öðru máli gegni um nýja auglýsingu þar sem Mercedes Benz auglýsir nýtt fjöðrunarkerfi. Hún sé eftirtektarverð og gerólík öðrum bílaauglýsingum um þessar mundir.