Slæmt skyggni en engin þokuljós
Allmargir félagsmenn FÍB sem talsvert eru á ferðinni á vegum úti hafa haft samband að undanförnu við félagið vegna þess hve margir ökumenn láta það ógert að kveikja á þokuljósunum aftan á bílum sínum þegar skyggni er slæmt. Þokuljósin eru öryggisbúnaður sem gerir bílinn miklu sýnilegri þegar skyggni er stórskert vegna þoku, snjókomu og skafrennings. Þeir sem á eftir koma, sjá bíl með kveikt þokuljós miklu fyrr en ella og geta miklu betur metið það hversu langt hann er í burtu. Þokuljósin draga þannig stórlega úr hættu á aftanákeyrslum og slysum.
Félagsmaður sem hefur þurft að vera talsvert á ferðinni yfir Hellisheiðina nú um hátíðarnar segir að skyggni á veginum hafi oft verið slæmt vegna þoku, ofankomu og skafrennings. Í ofanálag hafi líka verið flughált og hvassviðri umtalsvert og því gríðarlega mikilvægt að ökumenn kveiki á þokuljósunum svo þeir sem á eftir komi geti betur gert sér grein fyrir því sem framundan er. Það sé því sérkennilegt að upplifa það hversu fáir sjá ástæðu til að kveikja á þessum mikilvæga öryggisbúnaði, en það sé varla meira en tíundi hver bíll sem sé með þokuljósin kveikt þótt fullt tilefni sé til.
Af og til í áranna rás hefur fólk verið minnt á það að hafa ekki þessi ljós kveikt á bílum sínum þegar þeirra er ekki bein þörf. Vera kann að þær áminningar hafi orðið til þess að margir hiki við að kveikja á þeim af ótta við að gleyma þeim á sem geti truflað þá sem á eftir þeim aka síðar.
Sé þetta einhver hluti skýringar á almennu þokuljósaleysi í slæmu skyggni á vegum úti, þá skal hér minnt á það að þegar kveikt er á þokuljósunum kviknar jafnframt á gaumljósi í mælaborði bílsins sem þá ætti að minna ökumann á að slökkva á ljósunum þegar þeirra er ekki lengur þörf.