Slegið hressilega í klárinn
Ráðamenn Fiat samsteypunnar vilja heldur betur slá í klárinn varðand Alfa Romeo bílana. Meining þeirra er sú að þrefalda söluna á Alfa Romeo bílum á einungis þremur árum. Áætlanirnar gera ráð fyrir því auka árlega söluna um 300 þúsund bíla fram til ársloka 2016. Eitt af trompunum í erminni er nýr stór afturhjóladrifinn Alfa Romeo Giulia fólksbíll (sjá mynd) sem settur verður til höfuðs BMW 5-línunni.
Evrópa hefur verið lang mikilvægasti markaðurinn fyrir Alfa Romeo. Þar hafa selst um 90 prósent allra seldra Alfa Romeo bíla en nú er þessi markaður hrjáður af kreppu og samdrætti. Því líta menn til Ameríku, Asíu, Mið-Austurlanda, Afríku og Rússlands. Hvað varðar Ameríkumarkaðinn er gallinn bara sá að Alfa Romeo hefur ekki verið á markaði þar í áratugi. Það gæti þó breyst tiltölulega snögglega því að Fiatsamsteypan á nú og rekur hið bandaríska merki Chrysler og ekki ætti að vera flókið að bæta Alfa Romeo inn í sölukerfi Chryslers.
Sem stendur eru nokkrar eyður í bílaúrvalinu hjá Alfa Romeo sem unnið er að því að fylla upp í. Áður hefur verið nefndur hinn afturhjóladrifni Giulia en auk þess er jepplingur sem byggður er á Jeep væntanlegur fljótlega, sem og nýr Spider sportbíll í samvinnu við Mazda.