Sleifarlag og ábyrgðarleysi Reykjavíkurborgar vegna umferðartafa á Sæbraut
Höfuðborgarbúar hafa mátt þola óeðlilega miklar tafir í umferðinni síðustu vikur og mánuði. Frétt um þetta er á vef Ríkisútvarpsins í dag. Í fréttinni er haft eftir Guðbjörgu Lilju Erlendsdóttur, samgöngustjóra Reykjavíkurborgar að hennar fólk sé meðvitað um vandann. Skynjarar á ljósum við gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar eru óvirkir og það ástand hefur varað í töluverðan tíma. Grænu ljósin loga of stutt þannig að ekki næst að bregðast við umferðarmagni á hverjum tíma. Síðan er haft beint eftir Guðbjörgu. „Það er of stutt grænt ljós þarna. Það er bara þannig og við þurfum að koma því í lag.“
Fram kemur að 40 þúsund ökutæki fari um þennan vegkafla við ljósin að jafnaði á hverjum sólarhring.
„Við vorum að endurnýja búnað þarna á gatnamótunum fyrir jól og settum upp nýtt stýrikerfi á ljósin í janúar, en vorum ekki búin að tengja skynjarana“ segir samgöngustjórinn. .
Tíðarfarið síðustu vikur og annir vegna annarra verkefna settu að sögn Guðbjargar strik í reikninginn. Starfsmenn borgarinnar hafi ekki haft undan vegna óvæntra verkefna og því hafi uppsetning á umferðarljósum setið á hakanum.
Samgöngustjórinn heldur áfram að toppa sig í viðtalinu við RÚV þegar hún segir, „þetta hefur setið á hakanum of lengi, en þetta er sérhæfð vinna. Við vorum einmitt að ræða í gær að þetta gæti ekki dregist lengur þannig að við færum þetta ofar í forgangsröðinni.“ Loks endar Guðbjörg á að segja að vinna sé hafin og að hún vonist til þess að úr rætist í dag eða á morgun í síðasta lagi.
Ábyrgð gagnvart borgurunum
Samgöngustjórinn ber mikla ábyrgð sem hátt settur stjórnandi í borgarkerfinu líkt og sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur og borgarstjóri, sem er efstur í skipuritinu. Það er þakkarvert að þessir aðilar fóru ekki með stjórn mála þegar verið var að redda heitavatnslögnunum á Reykjanesskaga.
Þessar tafið af manna völdum sem hafa staðið yfir í margar vikur kosta borgarana og fyrirtæki dýrmætan tíma og peninga og draga úr samverustundum fjölskyldna. Umferðarösin dregur úr trúverðugleika og trausti til almenningssamgangna þar sem strætó var í sömu þvögunni. Ökutæki í lausagangi eða hægagangi losar mikið magn af loftmengandi efnum. Allar þessar tafir hafa aukið við loftmengun og aukið kostnað heimila og fyrirtækja vegna orkukaupa. Umferðartafir geta verið alvarleg öryggisógn við almenning m.a. vegna hindrana á flæði og forgang sjúkra- og slökkvibíla.
Ber einhver ábyrgð á svona sleifarlagi og verkfælni? Það þarf einhver að svara fyrir þessar umferðartafir af meiri ábyrgð en fram kemur í svörum samgöngustjórans í frétt RÚV.