Slysagildrurnar á vegum Tansaníu

Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og tæknistjóri EuroRAP á Íslandi hefur undanfarið dvalið í Tansaníu. Þar hefur hann starfað við að hleypa vegrýni EuroRAP af stokkunum í landinu. Ólafur segir í samtali við fréttavef FÍB að nú sé vinnu hans við verkefnið að ljúka. Um þessa helgi dæmir Ólafur í Tansaníurallinu sem er fyrsta FiA-keppnin um Afríkumeistaratitilinn í ralli 2010. Á mánudaginn tekur svo við hlutverki Ólafs í vegrýninni Raphael Dziub frá ADAC, hinu þýska systurfélagið FÍB, en Ólafur heldur heim á leið til Íslands.

http://www.fib.is/myndir/OliAfrika1.jpg
http://www.fib.is/myndir/OliAfrika2.jpg
Ólafur Kr. Guðmundsson í Tansaníu. Neðri
myndin er af Mwandabo. Hann er verkfræð-
ingur hjá vegagerð Tansaníu.

Ólafur byrjaði á því ásamt Bretanum James Bradford, tæknistjóra EuroRAP að setja upp nauðsynlegan tæknibúnað bæði um borð í mælingabílnum og til úrvinnslu þeirra gagna sem bíllinn safnar. Að því loknu hefur Ólafur kennt heimamönnum hvernig staðið er að vegrýninni og er hann nú búinn að aka um fjögur þúsund kílómetra um þjóðvegi Tansaníu í fjölbreyttu landslagi. „Allt hefur gengið vel og engin óhöpp orðið fyrir utan eitt sprungið dekk. Allir eru mjög vinalegir og hjálpsamir. Annars líður manni eins og svertingja í íslenskri sundlaug. Það stara allir á mann, sérstaklega úti á landi þar sem hvítir menn eru mjög sjaldgæf sjón,“ segir Ólafur.

Vegrýnin í Tansaníu fer fram undir merkjum iRAP sem er einskonar þróunaraðstoð bifreiðaeigendafélaganna innan FiA og hluti verkefnisins Decade of Action for Road Safety eða áratugur til aukins öryggis á vegum. iRAP hefur þann tilgang fyrst og fremst að miðla þeirri reynslu og þekkingu sem til er orðin í vegrýni EuroRAP og skapa öruggari umferð í þróunarríkjum. Það er gert með því að kanna vegina markvisst með aðferður EuroRAP og benda á hættustaði í vegakerfinu og leiðir til úrbóta á nákvæmlega sama hátt og EuroRAP hefur gert á Íslandi.

Stöðugt vaxandi umferðarslysafaraldur í þróunarríkjunum er að verða þvílík plága að líkja má við drepsóttarfaraldur. Umferðarslysin eru talin vera einn alvarlegasti þröskuldurinn í vegi þróunarríkjanna til betri lífskjara. Félag íslenskra bifreiðaeigenda getur því verið stolt af því að leggja sitt af mörkum til að ráðast gegn þessari vá.

Íbúar Tansaníu eru tæplega 44 milljónir í landi sem er rúmlega 945 þúsund ferkílómetrar. Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO greinir frá því að árlega farist hátt á þriðja þúsund manns í umferðarslysum og á sautjánda þúsund slasist.

Sameinuðu þjóðirnar hafa nú tekið baráttu gegn umferðarslysavánni  upp á sína arma og er málið t.d. á dagskrá allsherjarþings SÞ í mars nk.

Markmið bílaklúbbanna innan FiA með iRAP er það að skilgreina á næsta áratuginum hættustaði á 10 prósentum af verstu og slysahæstu vegum heimsins og sjá til þess að þeir verði lagfærðir og gerðir öruggir þeim sem um þá fara. Takist þetta má gera ráð fyrir því að um milljón manns verði á hverju einasta ári forðað frá því að lenda í alvarlegum umferðarslysum og láta lífið eða örkumlast fyrir lífstíð.

RAP (Road Assessment Program) vegrýni fer nú fram í yfir 60 löndum. Stöðugt fleiri lönd og heimssvæði bætast í hópinn. Ný RAP verkefni eru að hefjast á þessu ári í Mexico, Mið-Ameríku, Úganda, Egyptalandi, Indlandi, Filippseyjum, Kóreu, Bangladesh, Kanada og A. Evrópu.