Slysum fækkað þar sem meðalhraðamyndavélar eru í notkun
Um þessar mundir er verið að ganga frá og stilla fyrstu meðalhraðamyndavélarnar á Íslandi. Þessar hraðamyndavélar munu vakta Grindavíkurveg og ekki ósennilegt að ef tæknin reynist vel verði hún tekin í notkun víðar um landið.
Í viðtali við Morgunblaðið segir Björn Kristjánsson, séfræðingur hjá FÍB, að meðalhraðamyndavélar hafi ýmsa kosti fram yfir svk. punkthraðamyndavélar.
„Meðalhraðamælingar þekkjast víða erlendis og virka alla jafna þannig að kerfið ljósmyndar bíl á einum stað og les númeraplötuna, og myndar bílinn síðan aftur nokkru seinna með sama hætti. Með því að mæla hve langan tíma það tók bílinn að ferðast á milli þessara tveggja punkta má reikna út meðalhraðann og gefa út sekt ef bílnum var ekið yfir hámarkshraða.“
Björn segir punktahraðamyndavélar m.a. hafa þann ókost að ökumenn geta hægt ferðina rétt á meðan þeir aka fram hjá myndavélinni en svo aukið hraðann á ný, en með meðalhraðamyndavél megi tryggja akstur á löglegum hraða yfir langar vegalengdir. „Erlendar rannsóknir hafa líka sýnt að ökumenn halda áfram að aka á löglegum hraða í lengri tíma eftir að þeir hafa ekið í gegnum mælisvæði meðalhraðamyndavéla en ef þeir aka fram hjá punktahraðamyndavélum,“ útskýrir hann.
Jafnframt bendir Björn á að reynslan erlendis sýni að þar sem meðalhraðamyndavélar hafa verið teknar í notkun hafi tekist að fækka alvarlegum slysum um allt að helming, bæði þar sem hraðamælingin fer fram og einnig utan mælisvæðisins.
Þá á nýja hraðamælingakerfið á Grindavíkurvegi að senda lögreglu strax upplýsingar um hraðabrot svo útbúa má sektir án tafar. Þýðir þetta m.a. að erlendir ferðamenn munu síður geta sloppið frá sektunum.
„Hér á landi hefur kerfið ekki verið gallalaust og vakti FÍB athygli á því í lok seinasta árs að yfir 95% hraðabrota erlendra ferðamanna sem náðust á mynd voru látin falla niður. Varlega reiknað mátti því áætla að árið 2018 hafi þurft að fella niður 250 milljónir króna í hraðasektum sem ekki tókst að innheimta,“ segir Björn.
„Það er ekki nóg að setja bara upp vélarnar heldur þarf að tryggja virknina alla leið svo allir ökumenn séu jafnir fyrir umferðalögunum hvort sem þeir eru búsettir hér á landi eða erlendis.“ Viðtalið í heild sinni má nálgast hér.