Smá-torfærubíll

http://www.fib.is/myndir/Magna_Steyr_MILA_Alpin.jpg
Magna Mila Alpin.

Hin 90 ára gamla austurríska bílasmiðja, Magna Steyr hefur í áratugi byggt sérgerðir bíla fyrir ýmsa framleiðendur, m.a. fjórhjóladrifinn Fiat Panda, gamla kantaða G- jeppann fyrir Mercedes og nú síðast fjórhjóladrifinn Mini Clubman. Magna Steyr sýnir hins vegar á sér nýja hlið á bílasýningunni í Genf 6.-16. mars nk. Þá verður afhjúpaður nýr torfæru-örjeppi sem er að öllu leyti hugarfóstur, hönnun og smíð Magna Steyr.

Nýi jeppinn  sem  nefnist Magna Mila Alpin. Hann er með sætum fyrir 3+1 eins og það er nefnt. Bíllinn er hreint ekki neinn slyddu- eða borgarjeppi heldur hreinræktaður torfærubíll sem  fer um allt sem fjallageit.

Magna Mila Alpin verður í boði með vél sem gengið getur á bensíni eða gasi. Vélin er í miðjum bílnum og þyngdardreifingin mjög heppileg milli fram- og afturhjóla. Hann er sagður geta ekið upp og niður allt að 45 gráðu brekkur sem er mjög bratt hreint út sagt. Skögun fram eða aftur yfir hjólin er sáralítil þannig að ekki verður slíkt honum til trafala.

Bíllinn er hugsaður bæði sem heimilisbíll og sem vinnutæki. Hann er hannaður út frá því sjónarmiði að framleiðslan sé sem einföldust og ódýrust svo halda megi verði hans sem mest í skefjum. Botn og burðarvirki hans er samsett úr einingum sem er að finna í nokkrum evrópskum bílum. Þetta er gert bæði til að halda kostnaði í lágmarki en líka til að auðveldar verði komið til móts við þarfir og óskir kaupenda bílsins.

Vélin er sem fyrr segir í miðjum bílnum og sú sem er í sýningarbílnum í Genf er þriggja strokka og gengur fyrir metangasi. Þegar fram líða stundir verður Magna Mila Alpin fáanlegur með gas-, bensín, dísil- og tvinnvélum og á CO2 útblástur ekki að fara yfir 100 grömm á kílómetra, hver svo sem vélin verður. Fjórhjóladrifið er sítengt með læsingum á þver- og langveginn og ESC stöðugleikabúnaður verður staðalbúnaður.