Smart er til sölu
01.12.2005
Smart Fortwo.
Der Spiegel og fleiri þýskir fjölmiðlar hafa greint frá því að dótturfyrirtæki Daimler-Chrysler, Smart sé til sölu enda þótt núverandi forstjóri Daimler-Chrysler, Dieter Zetsche sé talinn vilja halda Smart áfram undir regnhlíf Daimler-Chrysler.
Líklegir kaupendur eru ekki tilgreindir í fréttunum en þess getið að tap á þessu ári verði tæpast undir 45 milljörðum ísl. kr.
Taprekstur hefur verið á Smart alla tíð enda þótt eftirspurn eftir tveggja manna borgarbílnum, Smart Fortwo sem er hin upprunalega gerð Smart, hafi aukist jafnt og þétt. Þeir bílar eru orðin mjög algeng sjón á götum evrópskra stórborga, t.d. Rómar og Parísar, enda liprir í akstri og auðvelt að leggja þeim í þrengslum borganna. Í dag framleiðir Smart tvær gerðir; tveggja manna bílinn Fortwo og Forfour sem er fjögurra sæta. Búið er að ákveða að hætta framleiðslu tveggja sæta sportbílsins Smart Roadster og hætt hefur verið við fyrirætlanir um að framleiða lítinn fjórhjóladrifsjeppling sem átti að nefnast Formore.
Saga Smart hófst þegar framleiðandi svissnesku Swatch armbandsúranna hannaði og byggði lítinn tveggja manna borgarbíl – hinn upprunalega Smart Fortwo. Hann reyndi að selja hugmyndina nokkrum bílaframleiðendum í Evrópu og svo fór að Mercedes Benz keypti hugmyndina. Núverandi forstjóri Smart heitir Ulrich Walker. Hann mun hafa lagt fram nýja starfsáætlun. Samkvæmt henni verður viðsnúningur í kjölfar nýrra bílagerða og reksturinn kemst í jafnvægi 2007. Þýsku fjölmiðlarnir hafa leitað viðbragða hjá forsvarsmönnum Daimler-Chrysler en þeir ekki viljað tjá sig um málefni Smart.
Smart Roadster. Framleiðsla á honum hættir brátt.