Smart með fjórar USA-stjörnur

http://www.fib.is/myndir/SmartFortwo-NHTSA1.jpg

Smart Fortwo var tekinn í áreksturspróf á vegum bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA í Bandaríkjunum á dögunum. Sala á þessum örbíl er loks að hefjast þar og í tengslum við dýrt og síhækkandi eldsneytisverð er orðin talsverð eftirspurn eftir Smart. Árekstursprófið var hluti af gerðarviðurkenningu bílsins.

Árangurinn varð fjórar stjörnur af fimm fyrir vernd fólksins í bílnum. Við framaná-árekstur hlaut bíllinn þrjár stjörnur fyrir vernd farþega en fjórar fyrir vernd ökumanns og fimm fyrir vernd gagnvart hliðarárekstri. Meðaltal þessa er svo sem fyrr segir fjórar stjörnur. http://www.fib.is/myndir/SmartFortwo-NHTSA2.jpg

Söluáætlanir fyrir þetta ár gera ráð fyrir að 25 þúsund Smart Fortwo bílar seljist á árinu. Eftirspurnin er hins vegar meiri  og svo virðist sem áhugi fyrir bílnum meðal Bandaríkjamanna hafi aukist talsvert eftir að borgaryfirvöld í New Your fóru að tala um að setja á sérstakan þrengslaskatt á bíla í borginni. Allir 25 þúsund bílarnir sem gert var ráð fyrir að seldust á þessu ári eru þegar ýmist seldir fyrirfram eða fráteknir.

Í bandaríska árekstursprófinu  er framaná-árekstursþolið kannað með því að aka bílum á 56 km hraða á ígildi steinveggjar.  Í hliðarárekstursprófinu er ígildi bíls hins vegar ekið inn í hlið bílsins sem prófaður er. Ekið er inn í hlið prófunarbílsins í 27 gráðu horni á 61 km hraða. Þrátt fyrir að hurð opnaðist í hliðarárekstrinum voru bílnar gefnar fimm stjörnur fyrir þennan prófunarþátt, að vísu með fyrirvara.

Árekstrarpróf Euro NCAP eru ólík bandaríska NHTSA- prófinu. Hjá Euro NCAP er framanáárekstrarþolið prófað þannig að ekið er á 64 km hraða framan á ígildi bíls sem snertir 40 prósent af framenda prófunarbílsins ökumannsmegin. Hliðarárekstursprófunin er þannig að ígildi bíls á 50 km hraða er ekið í hlið prófunarbílsins í 90 gráðu horni.