Smart með fjórar USA-stjörnur
Smart Fortwo var tekinn í áreksturspróf á vegum bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA í Bandaríkjunum á dögunum. Sala á þessum örbíl er loks að hefjast þar og í tengslum við dýrt og síhækkandi eldsneytisverð er orðin talsverð eftirspurn eftir Smart. Árekstursprófið var hluti af gerðarviðurkenningu bílsins.
Árangurinn varð fjórar stjörnur af fimm fyrir vernd fólksins í bílnum. Við framaná-árekstur hlaut bíllinn þrjár stjörnur fyrir vernd farþega en fjórar fyrir vernd ökumanns og fimm fyrir vernd gagnvart hliðarárekstri. Meðaltal þessa er svo sem fyrr segir fjórar stjörnur.
Söluáætlanir fyrir þetta ár gera ráð fyrir að 25 þúsund Smart Fortwo bílar seljist á árinu. Eftirspurnin er hins vegar meiri og svo virðist sem áhugi fyrir bílnum meðal Bandaríkjamanna hafi aukist talsvert eftir að borgaryfirvöld í New Your fóru að tala um að setja á sérstakan þrengslaskatt á bíla í borginni. Allir 25 þúsund bílarnir sem gert var ráð fyrir að seldust á þessu ári eru þegar ýmist seldir fyrirfram eða fráteknir.
Í bandaríska árekstursprófinu er framaná-árekstursþolið kannað með því að aka bílum á 56 km hraða á ígildi steinveggjar. Í hliðarárekstursprófinu er ígildi bíls hins vegar ekið inn í hlið bílsins sem prófaður er. Ekið er inn í hlið prófunarbílsins í 27 gráðu horni á 61 km hraða. Þrátt fyrir að hurð opnaðist í hliðarárekstrinum voru bílnar gefnar fimm stjörnur fyrir þennan prófunarþátt, að vísu með fyrirvara.
Árekstrarpróf Euro NCAP eru ólík bandaríska NHTSA- prófinu. Hjá Euro NCAP er framanáárekstrarþolið prófað þannig að ekið er á 64 km hraða framan á ígildi bíls sem snertir 40 prósent af framenda prófunarbílsins ökumannsmegin. Hliðarárekstursprófunin er þannig að ígildi bíls á 50 km hraða er ekið í hlið prófunarbílsins í 90 gráðu horni.