Smart sem bílaleigubíll í stórborgum

http://www.fib.is/myndir/Car2go1.jpg
Car2go - mannlaus Smart-bílaleiga.

Hjá Daimler AG, móðurfélagi Smart hafa menn fengið þá hugmynd að setja upp bílaleigur eingöngu með Smart-bílum. Bílarnir eiga að standa á bílastæðum hingað og þangað um borgirnar og þar geta leigutakar gengið að þeim, leigt þá með sjálfvirkum hætti frá einum klukkutíma til annars og skilað þeim á stæði að notkun lokinni – ekki endilega á sama stæðið og bíllinn var tekinn, heldur hvaða annað „Smart-stæði“ sem er innan viðkomandi borgar. Hugmyndinni var hrint í framkvæmd í tilraunaskyni í þýsku borginni Ulm í síðustu viku.

Eins og greint hefur verið frá hér á fréttavef FÍB er hafin sala á litla tveggja sæta bílnum Smart Fortwo í Bandaríkjunum. Það hefur komið á óvart hversu mikil eftirspurnin er þar eftir þessum örbíl. Verksmiðjan í Frakklandi hefur ekki undan henni og allt að árs biðlisti er í Bandaríkjunum eftir nýjum Smart. Hin óvænta eftirspurn hefur fengið menn til að hugleiða það hvernig og hverskonar samgöngur verða í stórborgum heimsins á næstu árum.

Ljóst þykir að stöðugt fleiri kjósa að búa í stórborgum og næsta nágrenni þeirra og þegar Daimler-fólkið rýndi í mannfjöldaspár SÞ taldi það sig sjá að það eru fyrst og fremst litlir borgarbílar sem eiga framtíðina fyrir sér og Smart Fortwo er einmitt slíkur bíll.

En það er jafnframt talið allsendis óvíst að borgarbúar muni í framtíðinni almennt kjósa að eiga eigin bíl í sama mæli og nú tíðkast. Vel getur hugsast að miklu fleiri borgarbúar en nú velji að eiga alls ekki bíl, heldur bara leigja hann þegar þess gerist þörf.

Þessar pælingar hjá Daimler leiddu til þess að stofnaður var sérstakur vinnuhópur sem ætlað er að upphugsa nýjar viðskiptahugmyndir sem lúta að því að áfram haldi tekjur að koma í kassann af bílum enda þótt bílakaup almennings dragist saman. Vinnuhópurinn heyrir beint undir sjálfan Daimlerforstjórann Dieter Zetsche. Hópurinn hefur nú hrint sinni fyrstu hugmynd í framkvæmd í borginni Ulm sem einmitt sú sem hér hefur verið nefnd. Verkefnið nefnist Car2Go og borgin Ulm er reyndar í kallfæri við höfuðstöðvar Daimler í Stuttgart því þaðan eru einungis um 100 km til Ulm.
http://www.fib.is/myndir/Car2go3.jpg
Í samvinnu við borgaryfirvöld í Ulm er búið að afmarka sérstök bílastæði fyrir Smart bílaleigubílana hingað og þangað um borgina. Til að geta leigt sér Smart bíl þarf fólk fyrst að útvega sér örgjörva sem festur er í ökuskírteinið. Sá sem hefur gert það fer aðeins á næsta Smart-stæði og ber ökuskírteinið upp að lesara í framrúðunni á bílnum sem hann vill leigja. Þar með getur hann sest inn í bílinn, gangsett hann og ekið af stað. Meðan bíllinn er í leigu geta engir aðrir en leigutakinn ekið honum. Þegar ekki er lengur þörf fyrir bílinn er honum skilað á eitthvert Smart-stæðanna innan borgarmarkanna.

Leigutaki getur haft bílinn eins lengi og hann lystir. Tölvan í bílnum telur leigutímann í mínútum. Eftir að bílnum hefur verið skilað verður til reikningur sem handhafar örgjörvans góða fá heimsendan ýmist í pósti eða tölvupósti. Ætlast er til að leigugjöld séu gerð upp mánaðarlega.

Til að vera viss um að bíll sé laus þegar leigutaki þarfnast hans, er hægt að bóka bíl á Internetinu eða í gegnum síma með allt að 24 klst. fyrirvara. Þannig er einnig hægt að ganga úr skugga um hvar lausir bílar fyrirfinnast þá og þá stundina. Ekki þarf að gera neinn leigusamning eins og hjá hefðbundnum bílaleigum og engar tryggingu þarf heldur að leggja fram.

Nú í fyrstunni verða 50 Smart bílar í boði með þessum hætti í Ulm en þeim verður fjölgað í 200 með vorinu.

Leigugjaldið í Ulm er nú í byrjun 19 evrusent á mínútuna eða 9,90 evrur á tímann. Heill dagur kostar 49 evrur. Innifalið í leigunni er skattar, tryggingar og eldsneyti. Ætlun Daimler-fólksins er að koma upp samskonar Smart leigum í fleiri borgun og þegar er byrjað að semja við yfirvöld Parísarborgar um bílastæði og aðstöðu fyrir 4 þúsund bíla.