Snúa baki við Takata
Stöðugt fleiri bílaframleiðendur snúa nú baki við japanska loftpúðaframleiðandanum Takata, nú síðast Honda. Ástæðan er hinar stórfelldu innkallanir vegna gallaðra loftpúða sem áttu það til að senda frá sér lífshættuleg sprengjubrot í þá sem þeir áttu að vernda.
Honda sendi nýlega út fréttatilkynningu um að Takata loftpúðar yrðu framvegis ekki í nýjum Hondabílum. Nánast allar nýjar Hondur hafa um langt árabil verið með Takata loftpúða. Þá greinir Reuters fréttastofan frá því að Mazda hafi gert hið sama og Bloomberg segir að Toyota sé að ljúka viðskiptum sínum við Takata og Mitsubishi íhugaði að gera það.
Nú mun það vera komið í ljós að ammoníumnítrat sem blés út loftpúðana frá Takata var efnið sem var hið háskalega í Takata loftpúðunum..Srengiefnið var byrgt inni í hylki en þegar sprengingin varð, þeyttust brot og flísar úr þessu hylki í þá sem í bílnum sátu, einkum þó ökumenninna. Að minnsta kost átta dauðsföll er rakin beint til þessa.
Þessi alvarlegi ágalli leiddi til þess að innkallaðir hafa nú yfir 40 milljón bílar af fjölmörgum tegundum og gerðum í heiminum. Meðal þeirra eru tegundir eins og Toyota, Ford, BMW, Nissan, Mazda, Honda og Mitsubishi. Bandarísk yfirvöld hafa sektað Takata um 70 milljón dollara og fyrirskipað því að hætta að nota ammoníumnítrat í loftpúðakerfin.
Vafasamt er nú talið að Takata lifi þessi áföll af. Það segir markaðssérfræðingurinn Amir Anvarzadeh hjá BGC Capital Partners. Hann segir við Automotive News að málið sé alvarlegra en hugbúnaðarsvindlið hjá VW. ,,Hér er um að ræða framleiðanda öryggisbúnaðar sem drap fólk og sem reyndi síðan að ljúga sig frá ðllu saman.”