Sólgular vegbætur voru aprílgabb
Fréttin hér neðar á síðunni um sólgular vegbætur FÍB var eins og margir vita góðlátlegt aprílgabb. Ágæt viðbrögð voru við fréttinni sem unnin var í samvinnu við Morgunblaðið og K100.
Nokkrir féllu fyrir góðlátlegu aprílgabbinu. Á bílaplanið fyrir framan skrifstofu FÍB við Skúlagötu 19 mættu m.a. vegavinnumenn frá einu sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu líklega með það að markmiði að kanna hvort þarna gæti verið komin þekkileg tækni til að bæta vinnubrögð við holufyllingar.
Félagið fékk einnig hrós um síma og í tölvupósti fyrir gott framtak. Ágæt ábending kom einnig varðandi það að holufyllingar starfsmaður FÍB var ekki í öryggisskóm eða með hjálm við leikgerð gabbsins.
Öllu gamni fylgir einhver alvara því undirtónninn í umfjölluninni var gagnrýni á holu ástandið og þann skort á öryggismenningu sem einkennir veghald hér á landi.