Söluhæsti bíllinn á Íslandi
Toyota Yaris er mest seldi nýi bíllinn á Íslandi frá áramótum til dagsins í dag. Alls hafa 323 slíkir bílar verið nýskráðir frá áramótum. Lang flestir eru bensínbílar en allmargir eru dísilbílar og tvíorkubílar. Alls hafa verið nýskráðir 5.472 nýir fólksbílar á tímabilinu.Þetta má lesa úr töflum Umferðarstofu.
Stærstur hluti nýrra fólksbíla á Íslandi frá áramótum eru litlir og meðalstórir bílar þannig að segja má að bílakaupendur virðast teknir að halla sér meir en áður að smá- og meðalstóru bílunum. Á þessu er þó ein veigamikil undantekning því að stór jeppi; Toyota Land Cruiser 150, er fjórði mest seldi bíllinn með 224 nýskráningar. Þá verður einnig að geta þess að um helmingur nýju bílanna 5.472 eru bílaleigubílar þannig að ekki er hægt að halda því fram að almenningur sé kominn á fullt í því að endurnýja heimilisbíla sína.
Innflutningur á nýjum bílum til landsins hefur mjög lítill verið þau ár sem liðin eru frá bankahruninu. Miðað við undangengin ár kann því að virðast sem 5.472 úr nánast engu sé mikil breyting til batnaðar hvað varðar að endurnýja bílaflotann í landinu. Svo er þó tæpast. Til að endurnýjunin yrði nokkurnveginn það sem kalla mætti eðlilega, þyrftu nýskráningar nýrra bíla að verða amk 10 þúsund á ári.
Listinn yfir 20 mest seldu bílana á Íslandi á árinu er annars svona:
- Toyota Yaris, 323
- Skoda Octavia, 288
- VW Polo, 268
- Toyota L. Cruiser 150, 224
- Suzuki Swift, 172
- VW Golf, 170
- Toyota Auris, 165
- Kia Ceed, 158
- Nissan Qasquai, 140
- Kia Rio, 131
- Suzuki Grand Vitara, 124
- Suzuki Jimny, 123
- VW Passsat, 122
- Ford Focus, 115
- Chevrolet Spark, 110
- Toyota RAV-4, 95
- Ford Kuga, 94
- Nissan Micra, 80
- Hyundai i30, 78
- Kia Picanto, 75