Sölumannabíll ársins
Stéttarsamband sölumanna í Svíþjóð er samband fólks sem starfa sinna vegna þarf að aka mikið. Þessi samtök velja á hverju ári sinn eigin bíl ársins og gerir því ef til vill aðrar og meiri kröfur til að bílarnir séu öruggir og þægilegir og láti vel að stjórn en einnig að þeir líti vel út.
Þetta sölumannasamband hefur nú útnefnt sinn bíl ársins; Hyundai i40 og það er ekki síst útlitið sem réði talsverðu um valið.
Í fréttatilkynningu um þetta frá Sölumannasambandinu segir að Hyundai i40 hafi útlit sem höfði til tilfinninga og fegurðarsmekks. Bíllinn sé fallegur og vel hannaður. Umhverfi ökumanns sé frábært og nóg sé geymslurými í bílnum og aðal farangursrýmið eða skottið sé stórt og nýtist vel. Bakkmyndavél er í bílnum og skjár fyrir það sem hún myndar er í sjálfum baksýnisspeglinum. Þetta fyrirkomulag þykir valnefndinni til mikillar fyrirmyndar. Jafnframt séu aksturseiginleikar bílsins mjög öruggir og góðir, mikið af hverskonar þægindabúnaði sé innifalinn í verði bílsins, þar á meðal er upphitað stýrishjól. Þrátt fyrir allt þetta sé bíllinn á hagstæðu verði og vel undir viðmiðunarverði því sem hinn sænski „skattmann“ gefur út fyrir fyrirtækjabíla af þessu tagi. Loks standist bíllinn nýjustu mengunarkröfur fyrir bíla af umræddri stærð sem mæla fyrir um að CO2 útblásturinn fari ekki upp fyrir 120 grömm á ekinn kílómetra.
Formaður dómnefndarinnar segir að nefndin prófi ekki bíla á sama hátt og aðrir bílablaðamenn gerir. Prófunin miðist fyrst og fremst við þarfir fólks sem þarf að aka mikið og hafa með sér ýmsan farangur eins og sýnishorn af söluvarningi og þessháttar. –Prófanir okkar miðast við manneskjuna sjálfa og þarfir hennar fyrst og fremst en minna við afl, snerpu og hámarkshraða, segir formaður nefndarinnar við AM&S í Svíþjóð.
Þeir bílar sem kepptu til árslita um titilinn sölumannabíll ársins að þessu sinni voru auk Hyundai i40 voru Toyota Avensis, Volkswagen Passat, Volvo V60 og Ford Mondeo.