Sonata sem tengiltvinnbíll

Hyundai-Kia samsteypan, sem er fjórði stærsti bílaframleiðandi heims, boðar nú að árið 2013 komi Hyundai Sonata á markað sem tengiltvinnbíll. Þróunarvinnu við bílinn er sagt lokið og reynsluakstri sömuleiðis að mestu og bíllinn tilbúinn til að fara í fjöldaframleiðslu. Tengiltvinnbílar eru þeir sem stinga má í samband næturlangt. Með fullhlaðna rafgeyma má aka þeim eingöngu á rafmagni meðan straumurinn endist.

Þessi fyrirætlun markar nokkra stefnubreytingu því að hingað til hefur Hyundai – Kia lagt mesta áherslu á þróun og framleiðslu á sparneytnum  dísil- og bensínvélum. En með tengiltvinnbíl tekur Hyundai upp beina samkeppni við t.d. Chevrolet Volt frá GM og við tengiltvinnbíla frá Toyota og Honda sem  koma á almennan markað á þessu og næsta ári.

Bæði markaðsrannsóknir og almenn tilfinning fróðra manna um bílamarkaðinn benda til þess að almennir bílakaupendur séu tregir til að festa kaup á hreinum rafbílum eins og t.d. Nissan Leaf vegna þess að þeim finnst þeir draga of stutt á hverri hleðslu, hleðslutími sé langur og hörgull sé á hleðslupóstum. Þeim þykir því rafbílar með eigin rafstöð um borð, álitlegri kostur.