Sorpa fær sjö metanknúna bíla
Margeir K. Eiríksson, vörustjóri Volkswagen atvinnubíla hjá HEKLU (fyrir miðju) og Knútur G. Hauksson, forstjóri HEKLU (t.h.) afhenda Birni H. Halldórssyni, framkvæmdastjóra SORPU lykla að bílunum sjö.
SORPA bs. fékk sl. fimmtudag afhenta sjö metanknúna Volkswagen bíla frá HEKLU. Um er að ræða fjóra VW Caddy life EcoFuel og þrjá VW Caddy EcoFuel. Bílarnir eru með tvíbrennihreyfli, sem þýðir að þeir geta gengið bæði fyrir metani og bensíni. Þeir eru fyrst og fremst knúnir metani en þrjóti það, skiptir sjálfvirkt stýrikerfi yfir á bensínkerfið.
Við þetta tækifæri sagði Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu: „Metan er innlendur, vistvænn orkugjafi, sem mikilvægt er að nýta eins og hægt er og er sérstaklega ánægjulegt að taka við sjö nýjum metanökutækjum á degi umhverfisins, sem að þessu sinni er sérstaklega tileinkaður loftslagsmálum.”
Knútur G. Hauksson, forstjóri HEKLU, sagði í ávarpi sínu að metanbílar væru einhver umhverfisvænsti kostur á markaðinum í dag. „Volkswagen hefur frá upphafi verið í fremstu röð í þróun metanbíla. Athuganir sem gerðar hafa verið hér á landi sýna að eldsneytiskostnaður metanbíla er 30% lægri en bensínbíla. Það kostar um 50 krónum minna á hverja selda eldsneytiseiningu að aka á metanbíl. Þá er mikilvægt að hafa í huga að metan er hreinasta ökutækjaeldsneyti sem völ er á og það eina sem framleitt er hér á landi. Í samanburði við bensínbíl er 20% minna af koltvísýringi í útblæstri metanbíla, 74% minna af kolsýringi, 36% minna af köfnunarefnisoxíði og 60% minna af sóti,” sagði Knútur að lokum.
Þessu næst afhentu Margeir K. Eiríksson, vörustjóri Volkswagen atvinnubíla og Knútur, Birni H. Halldórssyni, framkvæmdastjóra SORPU lykla að bílunum sjö.
Vistvænt innlent eldsneyti
Metan er unnið úr hauggasi, sem verður til við efnabreytingar á lífrænum úrgangi á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi. Notkun metans sem eldsneytis er sérlega umhverfisvæn því hún viðheldur hringrás lífrænna efna. Metan er ódýrara en innflutt eldsneyti og notkun þess sparar umtalsverðan gjaldeyri. Það er vistvænna en jarðefnaeldsneyti og brennsla þess dregur úr gróðurhúsaáhrifum.
Með nýju frumvarpi, sem varð að lögum nú í þinglok var vörugjald fellt niður á bifreiðum knúnum metani. Verðlækkun samkvæmt því fer þess vegna eftir vörugjaldsflokkum hverrar bifreiðar.
Búnaður í metanbílum er að öllu leyti eins og í bílum af sömu tegund, að undanskilinni eldsneytisrás fyrir metan, sem er aðskilin bensínkerfinu alveg frá áfyllingarstúti inn í brunahólf hreyfilsins.