Sovéskt listaverk!
Á stjórnartíma Stalíns í Sovétríkjunum og lengi þar á eftir voru yfirvöld upptekin af því að sýna og sanna meinta yfirburði stjórnarfarsins með hverskonar hagnýtum vélum og tækjum sem juku afköstin í iðnaði og landbúnaði.
Um þetta vitnar fjöld myndskreyttra greina í tímaritum eins og -Fréttum frá Sovétríkjunum sem stundum bárust hingað. Þar gaf að líta myndir af hetjulegu verkafólki brosandi við tækjunum sem það framleiddi sem auk þeirra framleiddi líka Rússajeppa, Moskvitsa, Volgur og jafnvel líka fáeina lúxusbíla handa leiðtogunum, eins og bíl Jósefs Stalíns sjálfs sem nefndist GAZ GL1.
En hvern hefði órað fyrir því að listaverk eins og sportbíllinn XIS 101A-Sport hefðu verið sköpuð undir Stalín – bíll sem ætla mætti að væri leiktæki fyrir forréttindafólk í ríkinu þar sem allir voru jafnir – og það upp úr 1930?
Bílaiðnaður Sovétríkjanna var nefnilega ekki sérlega þróaður á Stalínstímanum og lúxusbíll Stalíns var aldrei traust farartæki. En í bílgreininni störfuðu þó ungir og færir bílahönnuðir og verkfræðingar innanum og samanvið – menn sem stundum fengu frjálsar hendur. Meðal þeirra voru þeir sem hönnuðu þennan einstæða bíl, sem meira að segja harðstjórinn Stalín samþykkti og meira en það – fyrirskipaði framleiðslu á, enda þótt hönnuðirnir hefðu haft bandaríska ofurbíla þess tíma mjög til hliðsjónar.
Fullskapaður var bíllinn 6 metra langur, tveggja metra breiður og vóg 2,5 tonn og var einungis eitt eintak byggt. Meðal búnaðar í bílnum sem þá var óþekktur í sovéskum bílum má telja aflhemla með léttu ástigi og jafnvægisbúnaður til að draga úr slagsíðu í beygjum. Vélin var í fyrstunni 5,76 lítrar að rúmtaki, átta strokka í línu. Hún var 90 hestafla en var fljótlega stækkuð í 6,06 l. Við það jókst aflið í 141 hestafl við 3.300 sn. á mín.
En bíllinn þótti of þungur. Því var samhliða vélarstækkuninni leitast við að létta bílinn um 5-600 kíló og mun það hafa tekist. Þar með efldust hinir sportlegu eiginleikar bílsins og hann varð mun sneggri og hraðskreiðari. Hann var sagður geta náð 180 km hraða en samkvæmt mælingum sem gerðar voru skammt frá Minsk í Hvíta-Rússlandi fór hann hraðast í 162,4 km hraða á klst, sem reyndar þótti ærið á fjórða áratuginum.
Þrátt fyrir grænt ljós frá Stalín Kremlarbónda varð ekkert úr fjöldaframleiðslu á bílnum enda brast á heimsstyrjöld fljótlega eftir að þessi eina frumgerð hans í framleiðsluútgáfu var tilbúin. Hún var sett í geymslu og gleymdist svo með tímanum þar til hún fannst loks aftur og hefur nú verið standsett.