Sparakstur á Tesla rafmagnsbíl
Í dag, mánudag ætlar blaðamaður á Auto Motor & Sport í Svíþjóð að reyna að komast á einni rafhleðslu á Tesla Roadster sportbíl frá Gautaborg í Svíþjóð til Stokkhólms. Lagt var af stað í ferðalagið fyrir stundu. Hægt verður að fylgjast með ferðalaginu með því að smella hér.
Bíllinn sem blaðamaðurinn ekur í dag er í eigu Svíans Hans-Olof Nilsson sem er mikill áhugamaður um rafknúnar samgöngur, ekur sjálfur á rafbílum eingöngu og rekur vindraforkuver. Rafmagnið á bílinn er því framleitt án þess að nokkru jarðefnaeldsneyti hafi verið brennt og verður því nákvæmlega engin CO2 mengun af þessum akstri.
Tesla Roadster er mjög aflmikill sportbíll og einn slíkur bíll er til hér á landi, skráður á íslensk númer. Sjálfur bíllinn er í rauninni Lotus sportbíll en Tesla fyrirtækið í Silicondal í Kaliforníu kaupir bílana án véla-, gírkassa og innréttinga og setur í þá rafmótor og gengur frá þeim að öðru leyti. Geymarnir í bílnum eru í skottinu aftan við sætin og fram í húddi er hleðslu- og kælibúnaður fyrir geymana. Geymarnir eru eiginlega samstæða yfir þrjú þúsund farsímarafhlaða sem geta geymt næga raforku til nokkurra hundruð kílómetra aksturs. Nokkrar gerðir geymasamstæða eru fáanlegar hjá Tesla en sú stærsta mun geta komið bílnum um eða ¥fir 500 kílómetra leið.
Fjöldaframleiðsla er nú að komast á skrið á Tesla rafbílum. Hátt í þúsund Tesla Roadster bílar hafa verið seldir samkvæmt frétt Auto Motor & Sport og langur biðlisti kaupenda bíður eftir nýjum Tesla bílum.
Auto Motor & Sport hefur undanfarið verið með mikið sparakstursverkefni í gangi og er aksturinn á Tesla bílnum frá Gautaborg til Stokkhólms hluti þess. Bílarnir í verkefninu eru Mercedes E-línan, VW Passat Bluemotion, Seat Exeo og Volvo V70 DRIVe. Lengst hefur komist á einni tankfyllingu VW Passat eða 1.950 kílómetra. Bensinn sem er 200 hestafla og sjálfskiptur komst 1.620 kílómetra á tanknum, eða frá Stokkhólmi til Ungverjalands. Verkefninu er ekki lokið en þegar það verður gert upp, verður m.a. hægt að lesa úr því hversu mikil eyðslan var pr. kílómetra hjá hverjum bíl fyrir sig.