Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu á morgun

http://www.fib.is/myndir/FIB_SPARAKSTUR.jpg

Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu fer fram á morgun, laugardaginn 3. maí. Keppnin hefst kl. 12 á hádegi þegar fyrsti bíll verður ræstur af stað. Mikill fjöldi hefur skráð sig til keppni og er farartækjakostur þeirra all- fjölbreyttur. Keppt verður samkvæmt þeim lögum og reglum FIA sem gilda um keppni af þessu tagi. Reglur keppninnar er að finna á Word-skjali hér.

Keppnin er tvískipt: Annarsvegar keppa atvinnumenn, þ.e.a.s. keppendur úr bílgreininni en hins vegar almenningur. Almenna keppnin hefst kl. 12. Hún er upplögð laugardagsskemmtun fyrir fjölskylduna sem leggur þá saman hugvit og kunnáttu í því skyni að ná sem bestum árangri. Verðlaun verða veitt; kr. 25.000 til þess ökumanns þess fólksbíls sem fer hringinn á fæstu lítrum. Þátttökugjald er kr. 1.800 pr. fólksbifreið en 1.300 krónur fyrir félagsmenn FÍB eða dælulyklahafa Atlantsolíu.
 
Innifalið í þátttökugjaldi er leiðarbók og keppnisgögn, eldsneytisáfylling í lok keppni og veitingar á mótstað. Áætlaður keppnistími er um 2 klst og 15 mínútur. Keppnisleiðin er 143 kílómetrar og liggur um Mosfellsdal, Mosfellsheiði, niður Grafning, fram hjá Nesjavöllum að Ljósafossi, í gegnum Selfoss og um Þrengsli til Reykjavíkur. Upphaf og endir keppninnar verður á bensínstöð Atlantsolíu við Húsgagnahöllina, Bíldshöfða.

Mikilvægt er að almennir keppendur mæti með bifreiðar sínar á upphafsstað keppninnar í síðasta lagi kl. 11, klukkustund áður en fyrsti bíll verður ræstur af stað. Bílarnir skulu vera með fullan eldsneytistank og réttan loftþrýsting í dekkjum. Keppt verður í eftirfarandi flokkum og veittar verða viðurkenningar fyrir fyrstu þrjú sætin í hverjum flokki:
Bensínbílar (tvinnbílar) Dísilbílar
1. flokkur. Vélarstærð 0-1000 rúmsm 1. flokkur. Vélarstærð 0-1000 rúmsm
2. flokkur. Vélarstærð 1001-1600 rúmsm 2. flokkur. Vélarstærð 1001-1600 rúmsm
3. flokkur. Vélarstærð 1601-2000 rúmsm 3. flokkur. Vélarstærð 1601-2000 rúmsm
4. flokkur. Vélarstærð 2001 -2500 rúmsm 4. flokkur. Vélarstærð 2001 -2500 rúmsm
5. flokkur, Vélarstærð 2501-4000 rúmsm 5. flokkur, Vélarstærð 2501-4000 rúmsm
Sleggjuflokkur- 4001 rúmsm og stærri. Sleggjuflokkur- 4001 rúmsm og stærri.
Vélhjólaflokkur - 1. verðlaun - bikar Vörubílar/trukkar - 1. verðlaun - bikar
* Vélhjól greiða kr. 800; vörubílar og trukkar kr. 3.900.-