Sparneytnari Kínabílar
Reuters fréttastofan hefur eftir dagblaði í Shanghai í morgun að kínversk stjórnvöld hyggist veita kaupendum mjög sparneytinna bifreiða sérstaka skattaafslætti og ívilnanir í því skyni að örva vöxt og viðgang framleiðslu sparneytinna bíla.
Afslættirnir og ívilnanirnar eru hluti áætlunar um að uppfæra kínverskan bílaiðnað sem er bæði gríðarstór, en mjög mislangt kominn á veg í þróuninni. Ætlunin er að stórefla þann hluta hans sem framleiðir mjög sparneytna, mengunarlétta og umhverfismilda bíla og taka heimsforystu í framleiðslu þeirra. Hinn æðri tilgangur þessa er svo auðvitað að draga úr CO2 útblæstri og mengun frá samgöngum.
Árið 2009 tóku stjórnvöld upp sambærilega stefnu sem þá tók til bíla með brunahreyfla með allt að 1,6 l vélum. Lögin höfðu mjög örvandi áhrif á bílasölu í Kína og urðu til þess (í það minnsta flýttu því) að kínverski bílamarkaðurinn fór fram úr þeim bandaríska að stærð. En samkvæmt nýja lagafrumvarpinu munu kaupendur nýrra rafbíla og tvíorkubíla ekki þurfa að greiða skráningargjöld og fá auk þess afslátt af virðisaukaskatti sem leggst við kaupverð bílanna.