Sportbíllinn Healey birtist á ný

http://www.fib.is/myndir/Healey2006.jpghttp://www.fib.is/myndir/AustinHealey62.jpg

Nýjasti Healey og t.h. er Austin Healey frá 1962.

Hið söguríka sportbílamerki Healy er aftur að koma fram á sjónarsviðið. Það var Bretinn Donald Healy sem upphaflega hannaði og byggði sportbíla undir eigin nafni um og upp úr 1950. Síðar fór Donald Healy í framleiðslusamvinnu við Austin og hétu sportbílarnir þá Austin Healey. Síðast var Healy vörumerkið í eigu MG-Rover en var keypt út úr þrotabúi þess skömmu fyrir síðustu áramót.

Núverandi eigandi vörumerkisins er bresk-bandarískt fyrirtæki sem heitir HIFI Automotive og hafa forráðamenn þess tilkynnt að nýr Healy 3000 ofursportbíll sé þegar kominn í framleiðslu á þeirra vegum – sem bæði opinn og lokaður sportbíll.

Nýi Healy sportbíllinn verður í fyrstunni byggður í 203 eintökum og hefur ennþá ekkert verið látið uppi um hvenær fyrstu eintökin verða tilbúin né hvað þau eigi að kosta. Ljóst þykir þó að bílarnir verði rándýrir, enda tryllitæki mikil sem komast eiga á 330 km hraða eða svo. En áhugasamir kaupendur geta engu að síður strax lagt inn pöntun á einu eintaki hver og greitt eitt þúsund punda staðfestingargjald og fengið að velja sér laust grindarnúmer á bílinn á milli 001 og 203.