Spörum mannslífin með því að gera vegina öruggari
24.01.2006
Lífsnauðsynlegt er að breyta um áherslur til að markmið um umtalsverða fækkun þeirra 50 þúsund dauðaslysa sem árlega verða á evrópskum vegum náist. Þetta er mat European Road Assessment Programme (EuroRAP). Rannsókn sem gerð var á vegum stofnunarinnar sýnir að langflestir íbúar Evrópu hafa þá villutrú að samanborið við aðra kosti í umferðaröryggismálum þá muni það skila mestum árangri í fækkun dauðaslysa á næstu tíu árum að leggja fé í aðgerðir sem miða að því að gera ökumenn öruggari (fá þá til að haga sér betur í umferðinni).
Að meðaltali 60 prósent aðspurðra Evrópubúa trúa því ranglega að með því að fjárfesta í aðgerðum sem miða að því að gera ökumenn betri, náist bestur árangur, 27% telja að besti árangurinn náist með því að gera vegina öruggari og 13% með því að gera bílana öruggari. Niðurstöðurnar voru birtar í dag, 24. janúar í tilefni af því að austurríska ríkisstjórnin sem nú hefur tekið við forsætinu í Evrópusambandinu er að hleypa af stokkunum verkefni sem felst í því að bæta vegi landsins og gera þá öruggari.
Enda þótt lang flest umferðarslys verði vegna mistaka sem ökumenn gera, þá benda allar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Evrópu til þess að hönnun og gerð sjálfra veganna með tilliti til öryggis myndi vera lang árangursríkast við fækka látnum og alvarlega slösuðum í umferðinni, sérstaklega í löndum þar sem almenningur bæði skilur og viðkennir nauðsyn ábendinga og áróðurs um bætta aksturshegðun og öruggari bíla. Sem dæmi má nefna Holland. Þar álítur almenningur að endurbætur á vegum muni spara jafn mörg mannslíf og aðgerðir sem beinast að því að gera ökumennina betri og bílana öruggari myndu samanlagt gera. Allmargir sérfræðingar teru enn bjartsýnni. Þeir telja að öruggari vegir muni fækka dauðaslysum um allt að 80 prósent á næstu áratugum.
„Þótt trú fólks sé talsvert misjöfn eftir Evrópulöndum á því hvað skili bestum árangri þá er það alveg ljóst að mikilvægi þess að gera sjálfa vegina öruggari er stórkostlega vanmetið,“ segir John Dawson stjórnarformaður EuroRAP. „Enginn þarf þó að undrast yfir niðurstöðunum því að fólk er almennt mjög meðvitað um eigin ábyrgð og umhugað um að verða öruggari ökumenn. En rannsóknin sýnir að þær aðgerðir sem stjórnvöld í Svíþjóð og Hollandi hafa beitt sér fyrir í vegamálum hafa valdið hugarfarsbreytingu. Í þeim löndum er orðinn mestur almennur skilningur á því að öruggari vegir eru forgangsmál. Í Frakklandi og Bretlandi er almenningur sáttur við sterk skilaboð um ábyrgð ökumanna sem fylgt er eftir með öflugri löggæslu. Gallinn er sá að það getur orðið til þess að létta á kröfum til fjámálayfirvalda og vegagerðarstofnana að þau leggi sig sómasamlega fram um það að fækka dauðaslysum með framkvæmdum sem gera vegina öruggari,“ sagði John Dawson.
Svíþjóð og Holland geta státað af slysaminnstu umferðini í Evrópu. Þar telur almenningur samkvæmt könnuninni að fé til umferðarslysavarna sé best varið til þess að gera vegi öruggari. En umferð í Bretlandi er líka tiltölulega slysalítil þótt Bretar meti vegabæturnar minna en fyrrnefndar þjóðir. Af þeim þjóðum sem rannsóknin náði til meta Frakkar minnst vegbætur til að gera vegina öruggari og Svíar telja minnstan árangur verða af því að gera bílana öruggari.
Þeir sem telja að minnst gagn verði af þeim fjármunum sem varið er til að gera ökumennina öruggari eru flestir meðal Þjóðverja en af þeim sem telja að árangursríkast sé að gera bílana öruggari eru Þjóðverjar hlutfallslega flestir. Fjöldi þeirra Þjóðverja sem telja að árangursríkast sé að gera vegina öruggari er yfir Evrópumeðaltali.
Umferðarslysatíðni á Spáni er há en þar telur fólk samt að öryggi veganna skipti mjög miklu. Hlutfallslega litlu færri Spánverjar heldur en Hollendingar og Svíar eru þessarar skoðunar. Ástæðan er sú að á Spáni hefur birst EuroRAP skýrsla um öryggisástand vega í landinu. Skýrslan staðfestir að mjög margir vegir og vegarkaflar eru í hæsta áhættuflokki. Skýrslan hefur vakið mikla athygli og verið mikið rædd og um hana fjallað. Hún hefur stórlega eflt vitund Spánverja á mikilvægi þess að vegir séu gerðir sem öruggastir úr garði.
Á Írlandi telja tiltölulega fáir að fjárfestingar í vegabótum séu það sem mestu skiptir í því að fækka dauðaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni. Samt fara þar fram um þessar mundir einar umfangsmestu aðgerðir í Evrópu í þá átt að gera vegina öruggari. Hlutfallslega fæstir Írar telja að fjármagni sem varið er til þess að gera bílana öruggari muni skila bestum árangri í því að fækka dauðaslysunum. Hlutfallslega flestir þeirra og fleiri en aðrir Evrópubúar telja að árangursríkast sé að setja peninga í að gera ökumennina öruggari.
Fjöldi þeirra Belgíumanna sem telja öruggari vegi mikilvægasta þáttinn í fækkun slysa er nálægt Evrópumeðaltali en fjöldi þeirra sem telja að bætt hegðun ökumanna skipti mestu er með því hæsta. Hins vegar er fjöldi þeirra sem telur að betri bílar skipti mestu er með því lægsta. Loks telja Austurríkismenn að öruggari bílar skipti miklu en öruggari vegir skipti minna máli.
„Hvað varðar þann lið rannsóknarinnar sem lýtur að bættri hegðun ökumanna þá er á því sviði þegar búið að ná miklum árangri, til dæmis hvað varðar viðhorf til aksturs undir áfengisáhrifum, notkun öryggisbelta og hraðaksturs. Enginn vafi er á því að sá árangur hefur sparað þúsundir mannslífa. Næsta skrefið – næsti stórárangur - hlýtur því að vera fólginn í því að gera vegina öruggari. En til að það takist á sama hátt og hið fyrrnefnda, þá er nauðsynlegt að almenningur skilji tilganginn, að pólitískur vilji sé til að taka til hendinni og síðast en ekki síst að nægt fjármagn sé handbært til að sem best verði að málum staðið. Þessvegna styðja 18 Evrópuríki við bakið á átaki EuroRAP árið 2006. Átakið sem nefnist Öruggari vegir bjarga mannslífum á vonandi eftir að fá boltann til að rúlla af stað.
„Sumum vegaverkfræðingum, svipað eins og vélaverkfræðingum, áður en European New Car Assessment Programme (EuroNCAP) verkefnið hófst, er ekki veitt nægilegt svigrúm og stuðningur til að nýta kunnáttu sína til fulls til gera vegi eins örugga og er tæknilega mögulegt og rannsóknir sýna. Vitað er að það er hægt að draga verulega úr árekstrum og áföllum og alvarleika þeirra með því að taka með í reikninginn við hönnun vega og samgöngumannvirkja vegaverkfræðilega þætti sem þegar eru þekktir, án tiltölulega mikils aukakostnaðar. Þar sem þessa þætti vantar í vegina sem fyrir eru þarf að bæta þeim við. Stórviðgerir á vegakerfinu eru nauðsynlegar til þess að vegirnir sem við ferðumst á verði öruggari. Við verðum að nálgast málið út frá skýrum vilja þess almenningsálits sem sættir sig ekki lengur við það að fjöldi fólks deyi á há-áhættu akvegum, jafnvel einbreiðum. Við þurfum að byrja á því að útrýma há-áhættuköflunnum strax,“ sagði John Dawson.
Hlutfallslega flestir Írar telja að mestur árangur náist í fækkun dauðaslysa í umferðinni með því að beina athygli að ökumönnum og gera þá betri. Hlutfallslega fæstir Þjóðverjar eru þessarar skoðunar. Hlutfallslega flestir Hollendingar og Svíar telja að gera eigi vegina öruggari. Hlutfallslega flestir Þjóðverjar telja að vænlegast sé að gera bílana öruggari en hlutfallslega fæstir Írar og Svíar eru þeirrar skoðunar.
Evrópuríkin 18 sem taka þátt í verkefni EuroRAP, Safer roads save lives eru: Austurríki, Belgía, Króatía, Tékkland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Ísland, Írland, Ítalía, Holland, Noregur, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð og Sviss. Sjá nánar í skýrslunni -From Arctic to Mediterranean - First Pan-European Progress Report hérna,