Spyker segist vilja endurreisa Saab
Victor Muller forstjóri hollensku sportbílasmiðjunnar Spyker Cars segir í frétt í Automotive News Europe í dag að taki GM tilboði Spyker verði starfsemi Saab endurreist og öll áhersla verði lögð á það að framleiða gerðirnar 9-3, 9-5 og 9-4X. Áætlanir um nýjan lítinn Saab bíl; 9-1 gerðina svonefndu verði hins vegar lagðar á hilluna.
Muller sagði ennfremur að höfuðstöðvar Saab og meginframleiðsla yrðu áfram í Trollhattan í Svíþjóð. Allar gerðir Saab bíla nema jepplingurinn 9-4X yrðu framleiddar í Svíþjóð. 9-4X yrði framleiddur í verksmiðju GM í Ramos Arizpe í Mexíko ásamt Cadillac SRX, enda verða þeir nánast sami bíllinn. Framleiðsla Cadillac SRX á að hefjast undir lok þessa árs eða snemma á næsta ári – 2011.
Hugmynd Spyker forstjórans er sú að náin samvinna verði áfram milli GM og Saab, GM haldi áfram að framleiða mótora fyrir Saab og að öðru leyti verði Saab samsettur sem mest úr hlutum frá GM. Þá sagðist hann einnig vera hættur við að fækka sölustöðum Saab í Bandaríkjunum úr 218 í 137. Jafnframt myndu sérvalin Saabumboð í Bandaríkjunum einnig selja Spyker bíla. Haldið hefur verið fram að til að reksturinn á Saab standi í járnum þurfi árssalan næstu tvö árin að vera minnst 100 þúsund bílar. Árið 2008 seldi Saab 93.296 bíla. Uppgjör fyrir nýliðið ár liggur ekki fyrir ennþá, en salan var um 60 þúsund bílar.
Spyker er hollenskt fyrirtæki sem handsmíðar lúxussportbíla. Hjá því voru byggðir 43 lúxus sportbílar á síðasta ári og var tap á rekstri fyrirtækisins. Meðal eigenda þess sem nú koma að tilboði í Saab eru m.a. Rússar og Arbar, Tilboðið var lagt fram þann 20. des. sl. og þá framlengdi GM líf Saab til 7. janúar en hafði áður ákveðið að loka verksmiðjunni í Trollhattan og hætta rekstrinum 31. desember sl. Auk Spykers hefur bandarískt fjárfestingafyrirtæki; Merbanco Inc. í Wyoming verið orðað sem mögulegur kaupandi að Saab síðustu dagana.