ST- öflugasta Fíestan til þessa

Ford í Evrópu kynnir um þessar mundir nýja sportgerð Ford Fiesta smábílsins. Þessi gerð sem nefnist ST, er aflmesta og hraðskreiðasta Fíestan til þessa. Hún er 6,9 sek úr kyrrstöðu í hundraðið og kemst á 220 km hraða. Í bílnum er ný 1,6 lítra, 182 ha. vél með 240 Nm vinnslu.

http://www.fib.is/myndir/FiestaST_02.jpg

Bíllinn er venjulegur Ford Fiesta í grunninn en gerður að öflugum sportbíl hjá sérstakri deild Ford í Evrópu sem heitir Ford Team RS. Þar hefur skrokkur bílsins verið styrktur sérstaklega og í hann sett öflugra fjöðrunarkerfi, öflugri hemlar og stýrisbúnaður til að geta mætt örugglega miklu vélarafli og sportlegum akstursmáta.

Auk ofannefnds er í hinum nýja ST búnaður sem sjaldgæfur hefur verið í fólksbílum af þessari stærð hingað til. Meðal þess er þrí-stigskipt stöðugleikastýring (ESC) diskahemlar á öllum fjórum hjólum og tölvustýrt TVC kerfi (Torque Vectoring Control). TVc kerfið tengist hemlakerfinu og vinnur með því þannig að það leitast við að halda bílnum sem stöðugustum á veginum þegar hemlað er, t.d. í beygjum og á ósléttum vegum. Gírkassinn er sex gíra handskiptur.

Enda þótt bíllinn sé ofur öflugur er hann samt fyllilega brúklegur til daglegra nota. Eyðslan er einungis 5,9 l á hundraðið í blönduðum akstri og CO2 útblástur er 138 g á kílómetrann. Hvorttveggja er um 20% minna en var hjá undanfaranum – eldri kynslóð Fiesta ST. Enn fremur er nýja 1,6 l EcoBoost vélin 20% aflmeiri en eldri 2,0 l vélin var.