Stærri rafhlöður og lengra drægi Nissan Leaf
Ný uppfærsla Nissan Leaf með 30 kWst. rafhlöðum í stað 24 kWst. er kominn á Evrópumarkað. Með nýju rafhlöðunum hefur drægið aukist úr ca 200 km í 250 km.
Uppgefið drægi rafbíla er í flestum tilfellum nokkurskonar „teórísk“ tala sem fundin er með hinni stöðlu eyðslumælingaraðferð sem kallast NEDC-mæling. Niðurstöður hennar hafa sætt harði gagnrýni fyrir að vera of lágar og umtalsvert lægri en í raunverulegri bílanotkun venjulegs fólks og því tæpast marktæk nema þá sem einskonar vísitala. En 200-250 km drægi er reyndar fullnægjandi fyrir langflesta í þéttbýlisumferð því að heimilisbílnum í daglegri þéttbýlisnotkun er sjaldan ekið meir en 50 km á dag. Algengasti dagakstur heimilisbílsins. er 15-25 km á dag.
En drægi rafbílanna eykst stöðugt, bæði vegna þess að rafhlöðutækninni fleygir fram og orkurýmd þeirra batnar og jafnframt fer verð rafhlaðnanna stöðugt lækkandi. Þegar Nissan Leaf, fyrsti fjöldaframleiddi rafbíllinn kom á almennan markað kostaði sjálfur bíllinn svipað og sambærilegur fólksbíll. Rafhlöðurnar kostuðu síðan aðra eins upphæði – með ca 25% álagi. Nú er þetta að snúast við.
Nissan Leaf ruddi brautina fyrir aðra rafmagnsbíla fyrir almenning og er enn í fararbroddi nú með öflugri rafhlöður og er nú sá bíll sem næstur kemur lúxusbílnum Tesla S hvað drægi varðar. Volkswagen hefur boðað langdrægari e-Golf og BMW langdrægari i3. Þá boðar GM nýjan hreinan rafbíl; Chevrolet Bolt og nýja útgáfu af „ljósamótorbílnum“ Chevrolet Volt / Opel Ampera. Báðir þessir bíla eru sagðir verða með 60 kWst. rafhlöðum.